Stjórn Knattspyrnusambands Íslands kom til fundar klukkan tíu í morgun til að ræða ofbeldismál innan sambandsins. Svokallaður maraþonfundur var hjá stjórninni í gær sem stóð með hléum frá hádegi fram til kvölds. Gísli Gíslason, varaformaður KSÍ hélt þétt að sér spilunum um umræðuefni fundarins þegar fréttastofa náði tali af honum.
Ekki náðist í Guðna Bergsson, formann KSÍ, við vinnslu fréttarinnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fréttastofu en hann sagði í gær að yfirlýsingar væri að vænta frá stjórninni í dag.
Þöglir sem gröfin
Heimildir fréttastofu herma að mikil undiralda sé í knattspyrnuhreyfingunni og að krafa sé um afsögn formanns og stjórnarinnar í heild.
Stjórn íslensk toppfótbolta eru hagsmunasamtök félaga í efstu deildum á Íslandi. Forsvarsmenn stjórnarinnar segja að hluteigendur í máli KSÍ og leikmanns sem gengist hefur við broti eigi að axla ábyrgð. Þetta kemur fram í tölvupósti samtakanna til formanna knattspyrnufélaga. Ekki náðist í formann né framkvæmdastjóra Íslensks toppfótbolta þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fréttastofu.
Samkvæmt heimildum fréttastofu hófst fundur stjórnar Íslensks toppfótbolta nú í hádeginu. Á næstu dögum er reiknað með því að stjórnin fundi með formönnum knattspyrnufélaga þar sem málin verði frekar rædd.