Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá bílamergðina fyrir utan félagsheimilið Tungusel í gærkvöldi. Miðað við hana mætti ætla að mætt hafi verið nánast frá hverjum einasta sveitabæ í Álftaveri og Skaftártungu.

Fundurinn var einkum ætlaður heimamönnum en athygli vakti að frambjóðendur mættu einnig, þeirra á meðal Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Að sögn eins fundarmanna boðuðu afréttarnefndir sveitanna til fundarins í skyndi í fyrradag eftir að sveitarstjórn auglýsti óvænt íbúafund um málið, sem fram á að fara á Kirkjubæjarklaustri í kvöld.

Spurst hafi út að umhverfisráðherra hyggist fyrir komandi þingkosningar, með stuðningi oddvita, stækka Vatnajökulsþjóðgarð yfir afréttarlönd bænda. Segir viðmælandi fréttastofu að aðgerðinni sé augljóslega ætlað að vera einskonar sárabót fyrir að frumvarp um hálendisþjóðgarð varð ekki að lögum.

Páll Eggertsson á Mýrum, formaður afréttarnefndar Álftavers og einn fundarboðenda, nefnir sem dæmi að bændur hafi um árabil stundað uppgræðslu á afréttinum. Hann spyr hvort slíkt verði áfram leyft, ef svæðið verður gert að þjóðgarði. Hann segir það almenna kröfu bænda í sveitunum að málinu verði frestað.

Eva Björk Harðardóttir, oddviti Skaftárhrepps, staðfestir að stefnt sé að því að klára málið fyrir kosningar. Umhverfisráðuneytið hafi boðið bæði föst stöðugildi og sumarstörf sem og ákveðna uppbyggingu, sem skipti máli fyrir lítið sveitarfélag. Þetta sé tækifæri sem gefist núna og hún telji mikilvægt að grípa það fyrir kosningar. Eva telur áhyggjur bænda óþarfar og segir að engin breyting verði á þeirra stöðu.
Fundurinn á Kirkjubæjarklaustri í kvöld um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs er haldinn í Kirkjuhvoli og hefst klukkan 20. Starfsmaður frá Umhverfisráðuneytinu mætir og kynnir tillöguna.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: