Þetta kemur fram í svari UEFA við fyrirspurn Vísis. Þar segir að fulltrúar UEFA og FIFA hafi fundað á mánudag með stjórn KSÍ og verið upplýstir um þá ákvörðun stjórnarinnar að víkja, líkt og Guðni Bergsson formaður gerði á sunnudag.
Mikil gagnrýni hefur beinst að Guðna, Klöru Bjartmarz framkvæmdastjóra KSÍ, og stjórn sambandsins eftir frásagnir af meintum ofbeldisverkum landsliðsmanna. Klara er nú komin í leyfi en stjórn sambandsins ákvað að stíga til hliðar og boðaði því til sérstaks aukaþings sem getur í fyrsta lagi verið haldið 2. október, samkvæmt reglum KSÍ.
Núverandi stjórn þarf að sitja áfram fram að þessu aukaþingi, samkvæmt svari UEFA, til að koma í veg fyrir miklar lagaflækjur og truflanir á framkvæmd landsleikja karla og kvenna sem fram undan eru. Í svarinu segir að UEFA og FIFA hafi því samþykkt að styðja ákvörðun stjórnar KSÍ um að halda áfram sínum störfum fram að aukaþinginu.
Von er á fulltrúum UEFA og FIFA til landsins í næstu viku þar sem þeir munu hitta fulltrúa KSÍ. Fulltrúar sambandanna munu einnig mæta á aukaþingið sem ætla má að verði haldið í október.
Í svari UEFA er tekið skýrt fram að sambandið fordæmi algjörlega allt ofbeldi, þar með talið kynbundið ofbeldi.