Fótbolti

Mikael sagði fangelsismyndina mistök

Sindri Sverrisson skrifar
Mikael Anderson hefur æft með landsliðinu á Laugardalsvelli síðustu daga en á þriðjudagskvöld birti hann mynd af fangaklefa á Instagram, sem hann sá svo eftir að hafa gert.
Mikael Anderson hefur æft með landsliðinu á Laugardalsvelli síðustu daga en á þriðjudagskvöld birti hann mynd af fangaklefa á Instagram, sem hann sá svo eftir að hafa gert. Skjáskot/Instagram og KSÍ

Mikael Anderson, landsliðsmaður Íslands í fótbolta, er feginn að hafa fengið að skipta um félag á síðustu stundu áður en félagaskiptaglugginn lokaðist í vikunni. Hann segist hafa gert mistök með birtingu myndar á Instagram.

Mikael skipti um félag í Danmörku en AGF náði loks samkomulagi við Midtjylland, sem hafði áður hafnað tilboði, um kaup á þessum 23 ára landsliðsmanni á elleftu stundu. 

Fyrr á þriðjudagskvöld birti Mikael mynd á Instagram sem sýndi fangaklefa, væntanlega til að gefa í skyn að honum væri haldið föngnum í Midtjylland. Hann segir það hafa verið mistök.

„Eftir tvær leiktíðir þar sem mér tókst ekki að festa mig í sessi í liðinu þráði ég heitt að fá nýja áskorun. En ég gerði mistök á hringrásinni minni [e. Instagram Story] í gær þegar ég leyfði tilfinningunum að taka stjórnina,“ skrifaði Mikael á Instagram. Þar sagði hann einnig í eins konar kveðju til síns gamla félags:

„Þá er komið að því að kveðja eftir 9 ár sem leikmaður Midtjylland. Fyrst og fremst vil ég segja að brotthvarf mitt frá félaginu var ekki eins og ég hefði óskað. Ég hef verið mjög ánægður með minn tíma hjá Midtjylland, þar sem mér hefur alltaf verið vel tekið og verið umkringdur af frábæru fólki, innan sem utan vallar. Ég er þakklátur fyrir það sem félagið og stuðningsmennirnir hafa gefið mér og því mun ég ekki gleyma.“

Mikael er í íslenska landsliðshópnum sem leikur í undankeppni HM þessa dagana. Hann kom ekkert við sögu í leiknum við Rúmeníu í gær en gæti spilað gegn Norður-Makedóníu á sunnudag eða Þýskalandi næsta miðvikudag. Fyrsti leikur hans fyrir AGF gæti verið 12. september gegn Vejle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×