Skoðun

Heilbrigðismál í Suðurkjördæmi

Hólmfríður Árnadóttir skrifar

Síðustu ár hefur íbúum Suðurkjördæmis, á Suðurnesjum og Suðurlandi, fjölgað hvað mest með tilheyrandi þjónustuþörf og einhverjir hafa séð hag sinn í að sækja heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðið. Það er lítill fjárhagslegur, umhverfislegur eða samfélagslegur ávinningur fólginn í því að þurfa stöðugt að sækja sér vatnið yfir lækinn og hefur verið skýlaus krafa íbúa kjördæmisins að fá þjónustuna heim.

Því eru það góðar fréttir þegar eitthvað jákvætt gerist í heilbrigðismálum eins og raunin hefur verið síðustu misseri í stjórnartíð Svandísar Svavarsdóttur ráðherra heilbrigðismála og aukning á þjónustu bæði HSS og HSU orðin að veruleika. Ákalli íbúa um aukna þjónustu í heimabyggð hefur verið svarað með auknum fjárframlögum á síðasta kjörtímabili þrátt fyrir heimsfaraldur og því álagi sem starfsfólk og íbúar hafa fundið fyrir. Auknir fjármunir hafa farið í að fjölga sálfræðingum og efla geðteymi í umdæmunum enda tímabær vitundarvakning í þeim málum átt sér stað síðustu misseri og mikilvægt að íbúar geti notið þeirrar þjónustu í heimabyggð.

Þá hefur aukið fjármagn verið sett í endurnýjun húsnæðis og aukna fjölbreytni í þjónustu sérstaklega hvað varðar aldraða. Fjárveiting til nýrrar heilsugæslustöðvar á starfssvæði HSS er á fjárlögum þess árs og áætlað er að vegna brýnnar þarfar verði annað húsnæði tekið á leigu til að koma strax til móts við þjónustuþörfina meðan nýja stöðin er í byggingu. Um leið hefur verið tekið á skorti á hjúkrunarrýmum á Suðurnesjum og rýmum til að veita líknar- og lífslokameðferð á Suðurlandi með auknu fjármagni svo dæmi séu tekin.

Það sem liggur fyrir er aukið fjármagn, svigrúm og húsnæði til móttöku og aðkomu sérfræðinga og efling slíkrar þjónustu í heimabyggð. Halda þarf áfram að efla geðtengda starfsemi er varðar börn, ungmenni og aðra sem skortir þá þjónustu heima í héraði enda réttlæti og jöfnuður fólginn í því að fjölskyldur geti gengið að allri þjónustu vísri án lengri ferðalaga.

Árið 2020 hófst innleiðing nýs greiðslulíkans heilsugæslunnar sem mun marka tímamót í allri þjónustu fyrir okkur íbúa kjördæmisins. Byggir líkanið á því að fjármagn til reksturs hverrar heilsugæslustöðvar endurspegli þann hóp skjólstæðinga sem viðkomandi heilsugæslustöð þjónar. Þá hefur öflugt umbótastarf verið unnið á báðum stöðvum sem hefur skilað sér í auknum gæðum og ánægju meðal starfsfólks og þjónustuþega.

Báðar stofnanir horfa björtum augum til framtíðar og eru með skýra framtíðarsýn sem byggir á sterkari liðsheild meðal starfsfólks, auka starfsánægju og bæta þjónustu við íbúa enda starfsfólk beggja stofnana sýnt einstaka samheldni og lausnamiðun á tímum heimsfaraldurs.

Með öflugum opinberum rekstri og skýrri sýn jöfnuðar og félagslegs réttlætis er það stefna VG að tryggja áfram aðgengi að heilbrigðisþjónustu án aðgreiningar og með áherslu á gæði og yfirsýn. Um leið er það hagur hvers samfélags að hlúa að heilsu og velferð einstaklinga með markvissum forvörnum og heilsusamlegu umhverfi. Á tímum umhverfisverndar og í takt við stefnu VG er varðar félagslegt réttlæti og jöfnuð sjáum við ótal tækifæri til að efla og auka enn frekar við heilbrigðisþjónustu í Suðurkjördæmi. Það skiptir máli hver stjórnar.

Höfundur er oddviti Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Suðurkjördæmi.




Skoðun

Sjá meira


×