Um er að ræða leifar fellibylsins Larry sem fór yfir Karíbahafseyjar í byrjun mánaðar og norður austurströnd Bandaríkjanna og Kanada.
Marcel de Vries, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að byrja muni að hvessa og rigna á suðvesturhorninu í fyrramálið. Síðan muni vindhraði hækka smám saman og ná hámarki síðdegis eða annað kvöld.
Hann segir veðrið muni standa yfir fram á mánudag en þá muni það helst vera á Suður- og Suðausturlandi.
Marcel hvetur fólk til að huga vel að lausum munum utandyra og segir að hann mæli ekki með ferðalögum með tengivagna. Þá sé jafnvel mikilvægt að aka varlega á venjulegum bílum. „Þetta er ekkert ferðaveður,“ segir hann.
Gular viðvaranir hafa verið gefnar út fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Faxaflóa, Breiðafjörð, Suðausturland og Miðhálendi og taka gildi klukkan sex á morgun og gilda til klukkan ellefu á mánudagsmorgun.