Bandarísku landsliðskonurnar hafa staðið í deilum við sambandið undanfarin ár og fóru með málið alla leið fyrir dómstóla þar sem þær hafa reyndi ekki haft erindi sem erfiði ennþá.
Þær höfðu hins vegar fyrir löngu unnið almenningsálitið og hafa margir hneykslast á þeim leiðum sem bandaríska sambandið hefur farið til að réttlæta það að greiða körlunum hærri árangustengda bónusa.
Nú er aftur á móti komið annað hljóð í forráðamenn sambandsins sem vilja nú gera einn samning sem gildir fyrir bæði landsliðskonur og landsliðskarla.
„Þetta tilboð mun tryggja það að leikmenn karla- og kvennalandsliðs Bandaríkjanna munu halda sinni stöðu meðal þeirra hæstlaunuðustu í heiminum um leið að það tryggir jafna skiptingu tekja. Það gefur síðan öllum aðilum tækifæri til að hefja nýja vegferð í átt að sameiginlegu átaki að tryggja framtíð bandarísk fótboltans,“ sagði í yfirlýsingu frá sambandinu.
Stóra vandamálið liggur þó enn í misskiptingu árangurstekna hjá FIFA. Þar var verðlaunaféið 400 milljónir dollara á síðasta heimsmeistaramóti karla en aðeins 38 milljónir á síðasta heimsmeistaramóti kvenna. FIFA ætlar að hækka verðlaunafé kvenna upp í 60 milljónir á næsta móti sem er mikil hækkun en um leið langt frá því sem karlalandsliðin fá.
Þessi tilkynning frá sambandinu kemur í beinu framhaldið af því að forseti bandaríska sambandsins, Cindy Parlow Cone, sendi frá sér opið bréf þar sem hún sagði að karla og konur yrðu að sameinast, að allir þyrftu að endurhugsa það sem hefur verið gert hingað til og finna lausn á að skipta verðlaunafé FIFA jafnt.