Fótbolti

Ný­liðarnir byrja á sigri | Belling­ham frá­bær í Tyrk­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jude Bellingham fór mikinn í Tyrklandi í kvöld.
Jude Bellingham fór mikinn í Tyrklandi í kvöld. Alex Grimm/Getty Images

Fyrstu tveimur leikjum dagsins í Meistaradeild Evrópu er nú lokið. 

Sheriff Tiraspol er í fyrsta sinn að taka þátt í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og hóf liðið veru sína með 2-0 sigri á Shakhtar Donetsk. Þá vann Borussia Dortmund 2-1 útisigur á Besiktas í Tyrklandi.

Í Tiraspol voru það heimamenn í Sheriff sem voru mun betri aðilinn í leik dagsins. Adama Traore kom heimamönnum yfir með góðu skoti eftir fyrirgjöf Cristiano frá vinstri strax á 16. mínútu leiksins. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks og staðan því 1-0 er flautað var til hálfleiks.

Í síðari hálfleik tvöfaldaði varamaðurinn Momo Yansane forystu heimamanna með góðum skalla eftir fyrirgjöf Cristiano. Staðan orðin 2-0 og reyndust það lokatölur.

Ásamt Sheriff og Shakhtar eru stórlið Real Madríd og Inter Milan í D-riðli. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þeim vegnar er þau mæta til Tiraspol.

Í C-riðli áttust við Besiktas og Borussia Dortmund. Segja má að gestirnir hafi gert út um leikinn í fyrri hálfleik. Enski táningurinn Jude Bellingham kom gestunum frá Þýskalandi yfir á 20. mínútu leiksins.

Undir lok fyrri hálfleiks lagði hann svo upp annað mark liðsins en Norðmaðurinn Erling Braut Håland sá um að koma knettinum í netið. Staðan því 2-0 í hálfleik og var hún enn 2-0 er venjulegur leiktími rann sitt skeið.

Á fjórðu mínútu uppbótartíma skoraði Francisco Montero fyrir heimamenn en nær komust þeir ekki og lokatölur því 2-1 Dortmund í vil.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×