Innlent

Guðlaugur um sam­starf við Sví­þjóð í öryggis- og varnar­málum: „Höfum mikið fram að færa“

Þorgils Jónsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarsson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, undirritaði í dag yfirlýsingu um samstarf Íslands og Svíþjóðar í öryggis- og varnarmálum
Guðlaugur Þór Þórðarsson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, undirritaði í dag yfirlýsingu um samstarf Íslands og Svíþjóðar í öryggis- og varnarmálum Mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, undirrituðu í dag sameiginlega yfirlýsingu um samstarf Íslands og Svíþjóðar í öryggis- og varnarmálum.

Undirritunin fór fram á fjarfundi ráðherranna, að viðstöddum Pär Ahlberger, sendiherra Svíþjóðar í Reykjavík, og Hannesi Heimissyni, sendiherra Íslands í Stokkhólmi.

Í frétt á vef ráðuneytisins segir að í yfirlýsingunni sé lögð áhersla á að „efla samráð og samvinnu til að mæta öryggisáskorunum í nærumhverfi ríkjanna, á Norður-Atlantshafssvæðinu og á norðurslóðum, sem og fjölþáttaógnum“.

Þá sé þar einnig lögð áhersla á að „auka samráð um netöryggismál og markvissa upplýsingamiðlun og samstarf í verkefnum sem stuðla að framkvæmd öryggisráðsályktunar 1325 um konur, frið og öryggi“.

Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, undirritaði yfirlýsinguna fyrir hönd Svíþjóðar.Mynd

Í framhaldi af undirrituninni ræddu ráðherrarnir öryggis- og varnarmál.

„Nánara samstarf Íslands og Svíþjóðar styður við markmið norræna varnarsamstarfsins og annars fjölþjóðasamstarfs um öryggis- og varnarmál,“ er haft eftir Guðlaugi Þór. „Ég tel að við Íslendingar höfum mikið fram að færa í samstarfi við Svía og getum einnig lært margt af þeim“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×