Fótbolti

Mbappé meiddur af velli er PSG mis­tókst að vinna | Haller skoraði fjögur í Portúgal

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kylian Mbappé fór meiddur af velli í kvöld.
Kylian Mbappé fór meiddur af velli í kvöld. Joris Verwijsty/Getty Images

Öllum leikjum kvöldsins í Meistaradeild Evrópu er nú lokið.

Í A-riðli mættust Club Brugge og París Saint-Germain í Belgíu. Var þetta fyrsti leikurinn sem Lionel Messi, Neymar og Kylian Mbappé byrja fyrir Parísarliðið. Það kom því ef til vill örlítið á óvart þegar Ander Herrera skoraði fyrsta mark leiksins og kom gestunum í 1-0.

Herrera hefur verið heitur í frönsku úrvalsdeildinni það sem af er tímabili. Þrjú mörk og tvær stoðsendingar til þessa þar og nú eitt mark í Meistaradeildinni.

Heimamenn jöfnuðu þó metin þegar tæpur hálftími var liðinn og staðan 1-1 í hálfleik. Reyndust það lokatölur leiksins og segja má að þetta séu óvæntustu úrslit kvöldsins þar sem talið var að Brugge ætti ekki möguleika gegn ógnarsterku liði PSG.

Til að gera stöðuna enn dekkri fyrir Mauricio Pochettino og lærisveina hans þá haltraði Mbappé af velli snemma í síðari hálfleik. Óvíst er hversu illa meiddur hann er.

Í hinum leik A-riðils vann Manchester City 6-3 sigur á RB Leipzig í ótrúlegum leik.

Í B-riðli gerðu Atlético Madríd og FC Porto markalaust jafntefli. Þá vann Liverpool 3-2 sigur á AC Milan í mjög sveiflukenndum leik.

Í C-riðli vann Ajax magnaðan 5-1 útisigur á Sporting. Sebastian Haller gerði sér lítið fyrir og skoraði fernu í leiknum. Sá hinn sami og Ajax gleymdi að skrá í Evrópuhóp sinn á síðstu leiktíð. 

Í hinum leik C-riðils vann Borussia Dortmund 2-1 sigur á Besiktas í Tyrklandi fyrr í dag. 

Í D-riðli vann Real Madríd nauman 1-0 sigur á Inter Mílanó. Fyrr í kvöld höfðu nýliðar FC Sheriff unnið 2-0 sigur á Shakhtar Donetsk.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×