Fótbolti

Baulað á Griezmann í fyrsta heimaleiknum eftir endurkomuna til Atlético

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuðningsmenn Atlético Madrid tóku ekki beint vel á móti Antoine Griezmann er hann kom inn á gegn Porto.
Stuðningsmenn Atlético Madrid tóku ekki beint vel á móti Antoine Griezmann er hann kom inn á gegn Porto. getty/DAX Images

Antoine Griezmann fékk ekki beint hlýjar móttökur frá stuðningsmönnum Atlético Madrid í fyrsta heimaleik fyrir félagið eftir að hann kom aftur frá Barcelona.

Margir stuðningsmenn Atlético voru ósáttir með Griezmann þegar hann fór til Barcelona fyrir tveimur árum og virðist ekki runnin reiðin. Allavega ekki miðað við viðbrögð þeirra þegar Griezmann kom inn á sem varamaður í leik Atlético og Porto í Meistaradeild Evrópu í gær.

Stuðningsmenn Atlético bauluðu nefnilega á Griezmann í fyrsta leik hans á Wanda Metropolatino eftir komuna frá Barcelona. Margir stuðningsmenn Atlético klöppuðu Frakkanum lof í lófa en það heyrðist öllu minna í þeim en þeim ósáttu.

Diego Simeone, knattspyrnustjóri Atlético, gerði lítið úr móttökunum sem Griezmann fékk.

„Allir vilja gera mikið mál úr þessu. Vonandi heldur hann áfram að bæta sig svo hann geti svarað gagnrýninni. Það er áskorun vegna þess sem gerðist áður,“ sagði Simeone.

Barcelona keypti Griezmann frá Atlético fyrir 108 milljónir punda sumarið 2019. Frakkinn náði ekki flugi hjá Barcelona sem lánaði hann til Atlético á lokadegi félagaskiptagluggans um síðustu mánaðarmót. Atlético á svo forkaupsrétt á Griezmann næsta sumar.

Griezmann gekk í raðir Atlético frá Real Sociedad. Hann skoraði 133 mörk í 257 leikjum fyrir Atlético og er fimmti markahæsti leikmaður í sögu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×