Drengur á unglingsaldri og tveggja ára gamall drengur voru lagðir inn á Landspítalann í gær vegna Covid-veikinda. Heilsu tveggja ára drengsins hrakaði í gærkvöldi og var hann lagður inn á gjörgæsludeild yfir nóttina.
„En það gekk og engin ný vandamál sem komu upp. Hann var fluttur inn á barnadeildina nú síðdegis,“ segir Valtýr Stefánsson Thors, barnasmitsjúkdómalæknir á Landspítalanum.
Drengurinn er ekki með undirliggjandi sjúkdóm.
„Það sem gerist hjá honum er að hann fær bakteríusýkingu ofan í veirusýkingu sem er vel þekkt með flestar öndunarfæraveirur, bæði Covid og aðrar. Það er það sem gerist hjá honum og veldur því að hann þarf að leggjast inn.“
Þetta er í fyrsta sinn sem börn hafa þurft að leggjast inn á legu- og gjörgæsludeildir í faraldrinum.
„Og þó að þessi börn hafi þurft að leggjast inn er ástand þeirra þrátt fyrir allt stöðugt og ekki útlit fyrir að það þurfi verulega langa innlögn og almennt séð gengur þetta vel.“
103 börn undir 12 ára aldri eru í einangrun í dag vegna Covid. Langstærsti hlutinn, 72 börn, eru á aldrinum 6 til 12 ára. 23 börn eru á aldrinum 1 - 5 ára og 8 börn undir eins árs aldri. Valtýr segir fjölda veikra barna hafa farið hratt minnkandi undanfarnar vikur, en þau voru í kringum 300 þegar verst lét. Hann segir innlagnir þessara tveggja barna ekki benda til að þessi bylgja faraldursins leggist verr á börn.
„Það er líklegt að þetta veki ugg hjá mörgum og sérstaklega foreldrum barna en þetta er einskær tilviljun og ekki nein vísbending um að ástandið sé að versna eða það séu meiri líkur á að það séu fleiri börn að leggjast inn.“