Fótbolti

Stuðningsmenn Manchester City biðja Pep um að halda sig við þjálfun

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
stuðningsmenn Manchester City voru ekki sáttir við ummæli Pep guardiola, þjálfara liðsins, eftir sigurinn gegn RB Leipzig í Meistaradeild Evrópu á miðvikudagskvöld.
stuðningsmenn Manchester City voru ekki sáttir við ummæli Pep guardiola, þjálfara liðsins, eftir sigurinn gegn RB Leipzig í Meistaradeild Evrópu á miðvikudagskvöld. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Stuðningsmenn ensku meistaranna Manchester City hafa beðið þjálfara liðsins, Pep Guardiola um að halda sig við þjálfun eftir að Spánverjinn bað um betri mætingu á Etihad-leikvanginn.

Pep Guardiola virtist eitthvað ósáttur með hversu fáir mættu á völlinn þegar að lærisveinar hans lögðu RB Leipzig, 6-3, í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á miðvikudaginn.

Völlurinn getur tekið rúmlega 55.000 manns í sæti, en aðeins rétt rúmlega 38.000 stuðningsmenn létu sjá sig.

Formaður stuðningsmannafélags Manchester City, Kevin Parker, var heldur ósáttur með ummæli stjórans og segir að hann skilji kannski ekki að það geti verið erfitt fyrir stuðningsmenn að mæta á völlinn.

„Það sem hann sagði kom mér á óvart,“ sagði Parker. „Ég er ekki viss um hvað þetta hefur með hann að gera. Hann skilur ekki þá erfiðleika sem sumir eiga með að komas á Etihad völlinn klukkan átta á miðvikudagskvöldi.“

„Margir eiga börn sem þeir þurfa að hugsa um, sumir eiga ekki efni á því og svo eru enn vandræði með Covid. Ég skil ekki af hverju hann er að tjá sig um þetta.“

„Hann er klárlega besti þjálfari í heimi, en, og ég ætla að reyna að segja þetta eins fallega og ég get, kannski ætti hann bara að halda sig við þjálfun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×