Íslenski boltinn

Treysti þessu liði full­kom­lega til að klára þetta án mín

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kári Árnason í leiknum í dag.
Kári Árnason í leiknum í dag. Vísir/Hulda Margrét

Kári Árnason, leikmaður toppliðs Víkings, átti erfitt með að finna orð til að lýsa ótrúlegum leik Víkings og KR í Pepsi Max deild karla í fótbolta. Leiknum lauk með 2-1 sigri Víkinga sem eru nú einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum. Kári gæti verið í leikbanni í leiknum sem ræður úrslitum.

Víkingar lentu undir gegn KR en létu það ekki á sig fá. Atli Barkarson jafnaði metin og varamaðurinn Helgi Guðjónsson kom Víkingum 2-1 yfir undir lok leiks. Í uppbótartíma var vítaspyrna dæmd eftir að Kári virtist handleika knöttinn er hann stökk fyrir boltann upp við eigið mark.

Vítaspyrna dæmd en Ingvar Jónsson vari spyrnu Pálma Rafns Pálmasonar og Víkingar því komnir á toppinn þar sem Breiðablik tapaði 1-0 fyrir FH í Hafnafirði. Kári var því einkar glaður en að sama skapi enn að ná sér niður er hann ræddi við Stöð 2 Sport og Vísi að leik loknum.

„Það er bara eins og þetta sé skrifað í skýin. Ég sagði fyrir leik að þetta minnti mig að mörgu leyti á stemmninguna með íslenska landsliðinu þegar Króatía átti Finnland eftir fyrir HM, þetta er svo bara sama uppskrift. Við eigum samt einn leik eftir og við ætlum bara að klára það, held samt að ég sé í banni í þeim leik,“ sagði Kári sem var greinilega ekki viss hvort hann megi spila í lokaleik Víkinga á tímabilinu.

Um vítaspyrnudóminn

„Ég renn og þarf bara að taka Sölva (Geir Ottesen) á þetta, reyni því að henda hausnum í þetta. Fæ eitthvað aftan í hnakkann og held ég reki hausinn í boltann. Setti allavega aldrei hendina í hann.“

„KR-ingar gera þetta rosalega oft. Henda sér niður út um allt og öskra á víti endalaust. Það er þreytt að menn séu enn að falla í þessa gryfju en þetta er annað vítið sem Ingvar (Jónsson) tekur í röð og það er bara geggjað.“

„Já ég held það sé dæmd hendi, ég átta mig ekki á því,“ svaraði hann aðspurður hvað hefði verið dæmt á.

„Þetta er handrit sem við Sölvi erum búnir að vera vinna að í nokkur ár. Hvað getur maður sagt, ég treysti þessu liði fullkomlega til að klára þetta án mín,“ sagði Kári að endingu áður en hann hrósaði öllum Fossvoginum – „allavega á þessum aldri“ – fyrir að mæta á Meistaravelli í dag.

Víkingar fjölmenntu á leikinn.Vísir/Hulda Margrét

Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×