Þökk sé sigri helgarinnar eru Elías Rafn og félagar í Midtjylland komnir á topp deildarinnar. Elías Rafn hefur fengið traustið í upphafi tímabils og virðist ætla að ríghalda í stöðuna.
Hann hefur spilað fjóra leiki fyrir félagið en leikur helgarinnar var eflaust hans besti til þessa. Að halda markinu hreinu gegn stórliði FCK eftir að fá rautt spjald um miðbik fyrri hálfleiks, og það á troðfullum Parken.
Var Elías Rafn valinn maður leiksins að leik loknum.
„Þetta var frábær frammistaða, við stóðum allir saman eftir að hafa lent manni undir á Parken. Þetta var án efa magnaðasta upplifun mín á ferlinum til þessa. Ég á engin orð til að lýsa þessu, ég er orðlaus. Stuðningsfólk okkar var frábært og ég gæti ekki verið hamingjusamari,“ sagði Elías Rafn í viðtali að leik loknum.
„Við verðum að sjá til. Ég og Jonas Lössl vinnum náið saman og ef hann spilar styð ég við bakið á honum en meðan ég spila reikna ég með að hann styðji við bakið á mér,“ sagði markvörðurinn ungi aðspurður hvort hann væri nýr aðalmarkvörður Midtjylland.
Eftir að hafa verið á láni hjá FC Fredericia í dönsku B-deildinni á síðustu leiktíðinni er Elías Rafn mættur í úrvalsdeildina og virðist ætla að láta til sín taka í vetur.