Heimamenn í Roma voru sterkari aðilinn í kvöld og það var fyrrum Chelsea maðurinn Tammy Abraham sem að kom þeim í forystu á 36. mínútu eftir undirbúning Riccardo Calafiori.
Staðan var því 1-0 í hálfleik, og þrátt fyrir að vera betra liðið á vellinum tókst Roma ekki að bæta í. Lorenzo Pellegrini nældi sér í sitt annað gula spjald í uppbótartíma í liði Roma þegar hann setti olnbogann í Lazar Samardzic.
Það kom þó ekki að sök og lokatölur urðu því 1-0. Roma er með 12 stig eftir fimm leiki í fjórða sæti. Udinese situr í tíunda sæti með sjö stig.
Tveir aðrir leikir fóru fram í ítölsku deildinni í dag, en Napoli er enn með fullt hús stiga eftir 4-0 stórsigur gegn Sampdoria. Victor Osimhen skoraði tvö mörk fyrir Napoli og Piotr Zielinski og Fabian skoruðu sitt markið hvor.
Þá bjargaði Ciro Immobile stigi fyrir Lazio með marki af vítapunktinum í uppbótartíma eftir að liðið hafði lent 1-0 undir gegn Torino. Marko Pjaca skoraði mark Torino þremur mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður.