Handbolti

Meiddist við að taka vítakast: „Hef aldrei séð þetta áður“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Einar Sverrisson haltrar af velli eftir að hafa skorað úr vítakasti gegn Fram.
Einar Sverrisson haltrar af velli eftir að hafa skorað úr vítakasti gegn Fram. stöð 2 sport

Ekki er algengt að menn meiðist við að taka vítakast en það gerðist samt í leik Fram og Selfoss í Olís-deild karla í síðustu viku.

Mikil meiðsli herja á lið Selfoss og það síðasta sem það má við er að fleiri leikmenn bætist á meiðslalistann.

Það fór því eflaust um marga Selfyssinga þegar Einar Sverrisson meiddist við að taka vítakast í leiknum gegn Fram. Einar skoraði úr vítinu en haltraði af velli.

„Ég hef aldrei séð þetta áður, ég verð að viðurkenna það,“ sagði Bjarni Fritzson í Seinni bylgjunni. 

Selfyssingar geta þó andað léttar því meiðsli Einars eru ekki alvarleg. „Sem fer skilst mér að hann hafi fengið krampa en ekki tognað sem þýðir að hann er væntanlega klár í næsta leik og allt í góðu. En lýsir þetta ekki pínu stemmningunni?“ sagði Bjarni.

Klippa: Seinni bylgjan - Vítakast Einars Sverrissonar

Selfoss tapaði leiknum í Safamýrinni á fimmtudaginn, 29-23. Einar var markahæstur Selfyssinga með sjö mörk, þar af komu fjögur úr vítaköstum.

Einar og félagar hans í Selfossi taka á móti FH í kvöld. Leikurinn átti að fara fram í 1. umferð en var frestað vegna þátttöku Selfyssinga í Evrópukeppni.

Leikur Selfoss og FH hefst klukkan 19:30 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×