Fótbolti

Arnar: Kári hefði verið í hópnum ef að Víkingarnir væru ekki svona góðir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Árnason fagnar Íslandsmeistaratitlinum með Víkingum um síðustu helgi.
Kári Árnason fagnar Íslandsmeistaratitlinum með Víkingum um síðustu helgi. Vísir/Hulda Margrét

Kári Árnason var ekki valinn í landsliðshópinn í dag fyrir leiki á móti Armeníu og Liechtenstein. Hann spilaði einn af þremur leikjum í síðasta verkefni en framundan eru bikarleikir með Víkingum, undanúrslit á laugardag og svo bikarúrslit eftir landsleikjagluggann.

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, var spurður út í Kára Árnason og fjarveru hans í hópnum á blaðamannafundinum í dag.

Arnar fékk þá spurningu hvort Kári hefði verið í hópnum ef Víkingar væru ekki í undanúrslitum bikarkeppninnar.

„Kári hefði mjög líklega verið í hópnum ef að Víkingarnir væru ekki svona góðir,“ sagði Arnar Þór Viðarsson og hélt áfram:

„Við töluðum síðast við Kára í gær og hann er að fara í undanúrslitaleik. Eins og hann segir, mjög líklega og vonandi fyrir Víkinga, í úrslitaleik. Við vit um það alveg og Kári veit það sjálfur að það er mjög erfitt að spila marga leiki á stuttum tíma,“ sagði Arnar.

„Þetta eru síðustu skrefin hjá honum á ferlinum og við vorum bara sammála um það að verði með okkur og komi eitthvað inn á hótel til okkar og heilsar upp á mannskapinn ef það er hægt út af Covid bubblu og öðru. Síðan er ég nánast pottþéttur á því að KSÍ muni heiðra þann heiðursmann Kára Árnason fyrir sinn knattspyrnuferli mjög fljótlega,“ sagði Arnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×