Innlent

Varð­skipið Þór losar Stranda­menn við grind­hvala­hræin

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Um fimmtíu grindhvalir voru taldir í fjörunni.
Um fimmtíu grindhvalir voru taldir í fjörunni. Björn Axel Guðbjörnsson

Varðskipið Þór mun sigla að Árneshreppi á Ströndum á þriðjudaginn og losa heimamenn við rúmlega fimmtíu grindhvalahræ sem liggja í fjörunum við Melavík. RÚV greindi fyrst frá.

Greint var frá því um helgina að grindhvalirnir hefðu synt á land í stórum hóp. Ekkert var hægt að gera til að aðstoða hvalina sem drápust skömmu síðar, einn af öðrum.

Í samtali við Vísi segir Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, að Þór muni koma á þriðjudaginn, safna hræunum saman og sigla með þau út fyrir sjávarstrauma þar sem þeim verður hent fyrir borð.

„Okkur er mikið létt, þetta er það stórt og mikið. Þetta er bara umhverfisslys, þetta er það mikið,“ segir Eva og bætir við að hreppurinn hefði ekki haft bolmagn til þess að losa hræin, sem sum hver eru einhver tonn að þyngd og um fimmtíu talsins.

„Þetta eru fleiri en íbúafjöldinn í sveitinni, þannig að það hefði ansi hreint erfitt að eiga við, segir Eva,“ en 45 manns bjuggu í sveitarfélaginu í júní síðastliðnum.

Hafrannsóknarstofnun kom á svæðið á dögunum og tók sýni úr hverju og einu hræi og segist Eva vona að rannsóknir skili einhverjum niðurstöðum um hvað hafi valdið því að hvalirnar syntu á land.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×