Erlent

Þýska lög­reglan rann­sakar til­felli Havana-heil­kennisins í banda­ríska sendi­ráðinu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lögreglan í Berlín hefur nú til rannsóknar tilfelli Havana-heilkennisins.
Lögreglan í Berlín hefur nú til rannsóknar tilfelli Havana-heilkennisins. Gettty/David Hutzler

Lögreglan í Berlín rannsakar nú dularfull tilfelli Havana-heilkennisins svokallaða meðal starfsmanna bandaríska sendiráðsins í borginni. Rannsóknin hófst í ágúst og miðar að því að kanna hvort örbylgjuárás hafi verið gerð á sendiráðsstarfsmenn.

Meira en 200 bandarískir diplómatar og opinberir starfsmenn hafa þjáðst af heilkenninu frá því að fyrstu tilfellin komu upp árið 2016. Breska ríkisútvarpið greinir frá. 

Joe Biden, Bandaríkjaforseti, hét því í gær að komast að því hvað valdi heilkenninu og hverjir beri ábyrgð á því.

Þeir sem þjáðst hafa af þessu dularfulla heilkenni hafa kvartað yfir miklum höfuðverkjum, heyrnatruflunum, höfuðþrýstingu, svima, ógleði og þreytu auk annarra einkenna.

Samkvæmt frétt Der Spiegel hafa nokkrir starfsmenn bandaríska sendiráðsins í Berlín kvartað undan einkennum Havana-heilkennisins. Talsmaður sendiráðsins vildi ekki tjá sig um rannsóknina í Berlín en sagði í samtali við fréttastofu Reuters að rannsókn standi nú yfir hjá bandarískum yfirvöldum á tilfellum heilkennisins um heim allan.



Fyrstu tilfelli heilkennisins komu upp í sendiráði Bandaríkjanna og Kanada í Havana árið 2016, og hlaut heilkennið nafn sitt af því. Síðan þá hefur fjöldi fólks kvartað undan sömu einkennum.

Yfirmaður CIA, leyniþjónustu Bandaríkjanna, í Vín í Austurríki var í síðasta mánuði látinn taka pokann sinn fyrir að hafa ekki brugðist nógu vel við fjölda tilfella heilkennisins í bandaríska sendiráðinu í borginni. Nokkrum dögum fyrir uppákomuna í Vín hafði starfsmaður CIA ferðast með yfirmanninum til Indlands og fundið fyrir og greint frá einkennum Havana-heilkennisins.

Þá var ferð Kamölu Harris, varaforseta Bandaríkjanna, frá Singapúr til Hanoi, höfuðborgar Víetnam, frestað fyrr í haust eftir að opinber starfsmaður Bandaríkjanna fann fyrir einkennum heilkennisins.

Þrátt fyrir þennan fjölda tilfella er enn óljóst hvað valdi veikindunum. Bandarískir vísindamenn veltu því upp í fyrra að líklegasta skýringin væri örbylgjuárás, sem beint væri að starfsstöðvum Bandaríkjanna.


Tengdar fréttir

Tvær mögulegar „örbylgjuárásir“ til skoðunar í Hvíta húsinu

Talsmenn Hvíta hússins segja tvö „óútskýrð heilbrigðistilvik“ til rannsóknar en greint hefur verið frá því að tveir embættismenn í Washinton hafi skyndilega upplifað einkenni á borð við þau sem þjáð hafa einstaklinga sem unnu í sendiráðinu á Kúbu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×