Innlent

Í­búar í sveitinni hjálpuðu á­höfninni að hreinsa upp hræin

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hræin voru dregin um borð í varðskipið Þór.
Hræin voru dregin um borð í varðskipið Þór. Landhelgisgæslan

Áhöfnin á varðskipinu Þór dró um fimmtíu grindhvalshræ úr fjörunni í Melavík á Ströndum um borð í skipið í dag. Íbúar á nærliggjandi bæjum aðstoðuðu áhöfnina við verkið.

Hvalina rak á land í Árneshreppi á Ströndum fyrr í þessum mánuði. Í dag voru hræin svo dregin með léttbátum Þórs og hífð með krana um borð í skipið.

Léttbáttar Þórs drógu hræin að Þór, þar sem þau voru hífð um borð.Landhelgisgæslan

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni kemur fram að íbúar nærliggjandi bæja hafi ekki látið sitt eftir liggja. Þeir hafi létt áhöfninni lífið með því að draga hræin nær flæðarmálinu með dráttarvél. Samvinna áhafnar og íbúa hafi gengið vel.

Varðskipið var komið í Melavík um klukkan tíu í morgun og hófst áhöfnin þá handa við að draga hræin úr fjörunni. Síðustu dýrin voru dregin úr fjörum við Árnes og litlu Ávík á sjötta tímanum. Skipið mun sigla með hræin út fyrir sjávarfallsstrauma og sleppa þeim í sjó djúpt norður af Langanesi.

Þór mun sigla með hræin út fyrir sjávarfallsstrauma og sleppa þeim í sjóinn.Landhelgisgæslan

„Þetta er búið að ganga afskaplega vel og það sem stóð upp úr í dag var samvinna fólksins hér á svæðinu og áhafnarinnar á Þór. Hún var algjörlega til fyrirmyndar,“ er haft eftir Páli Geirdal, skipherra á varðskipinu Þór.

Hér að neðan má sjá myndband af aðgerðum gæslunnar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×