Reuters greinir frá og segir að undanförnu hafi alríkisdómarinn Tanya Chutkan dæmt fjóra einstaklinga sem tóku þátt í áhlaupinu til þyngri refsingar en farið var fram á að hálfu ákæruvaldsins.
Fjórmenningarnir voru ákærðir fyrir að hafa gengið um þinghúsið á ólögmætan hátt og tekið þátt í ólöglegum mótmælum. Viðkomandi höfðu allir játað sig seka en um minniháttar brot er að ræða.
Þannig dæmdi Chutkan tvo frændur sem tóku þátt í áhlaupinu og tóku sjálfsmyndir af sér í 45 daga fangelsi, saksóknari hafði hins vegar bara farið fram á þrjátíu daga fangelsi. Áður hafði Chutkan dæmt annan sakborning í tveggja vikna fangelsi, þvert á tillögu saksóknara sem lagði til skilorðsbundin dóm.
„Það að hafa tekið þátt í atlögu að alríkisstjórn Bandaríkjanna verður að hafa meiri afleiðingar en það að sitja heima hjá sér,“ sagði Chutkan í einum af réttarhöldunum.
650 ákærðir
Alls hafa 650 verið ákærðir fyrir þátt sinn í áhlaupinu þegar stuðningsmenn Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, gátu ekki sætt sig við úrslit forsetakosninganna og gerðu áhlaup á þinghúsið 6. janúar þegar þingheimur var við það að staðfesta úrslit kosninganna. Fjórir létust í áhlaupinu og fjölmargir slösuðust.
Hundrað manns hafa játað sig seka og sautján af þeim hafa þegar hlotið dóm. Chutkan var skipuð í embætti alríkisdómara af Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta.