Neytendur

Óttast skort á vetrar­dekkjum á landinu

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Jóhann Jónsson, markaðs- og birgðastjóri Dekkjahallarinnar.
Jóhann Jónsson, markaðs- og birgðastjóri Dekkjahallarinnar. aðsend

Sumir á landinu gætu lent í að fá ekki vetrar­dekk í ár vegna skorts á sendingum frá Asíu, að sögn Jóhanns Jóns­sonar, markaðs- og birgða­stjóra Dekkja­hallarinnar. Flestir dekkja­salar landsins hafa lent í ein­hverjum vand­ræðum með pantanir sínar í ár og fá hluta þeirra annað­hvort seint eða ekki.

„Maður finnur fyrir því að það er erfitt að fá dekk í ár og sér­stak­lega frá Asíu,“ segir Jóhann í sam­tali við Vísi.

Hann segir að í kjöl­far kórónu­veirufar­aldursins hafi sendingar gáma frá Asíu snar­hækkað í verði og að staðlað verð fyrir hvern gám hafi í vor orðið tvö­falt á við það sem þekkist venju­lega.

„Það er fyrir staðlaða sendingu en staðan þar er þannig að þær hreyfast ekkert þannig ef þú vilt fá gáminn til þín verðurðu að greiða fyrir ein­hverja flýti­með­ferð. Með henni er flutnings­kostnaðurinn búinn að þre­faldast,“ segir Jóhann.

Hann segir að við þetta hækki dekk frá Asíu, sér­stak­lega Kína, eðli­lega í verði hér á landi en þau eru oftar en ekki mun ó­dýrari en dekk frá öðrum fram­leið­endum.

Dekkjahöllin býst ekki við að fá neinar sendingar af kínverskum og ódýrari dekkjum fyrir veturinn.vísir/vilhelm

„Verð­bilið á milli þessara ó­dýru dekkja og gæða­dekkja hefur bara minnkað. Og við erum til dæmis að panta dekk frá Yokohama sem eru með verk­smiðjur í Evrópu og vöru­hús í Sví­þjóð. Þess vegna erum við búin að fá megnið af því sem við erum búin að panta frá þeim en ekkert frá Asíu.“

Jóhann telur úti­lokað að þau dekk sem Dekkja­höllin hefur pantað frá Kína komi til landsins fyrir veturinn. „Þetta er alveg tölu­vert af dekkjum. Og ljóst að í vetur verður mun verra að­gengi að ó­dýrum dekkjum á landinu.“

Gæti hrein­lega farið svo að sumir Ís­lendingar hrein­lega fái ekki vetrar­dekk í ár?

„Það gæti alveg farið út í það, já. Og þess vegna er kannski betra að menn geri ráð­stafanir núna heldur en að ætla sér að taka þetta seinna í haust. Bara til að vera með vaðið fyrir neðan sig,“ segir Jóhann.

Verksmiðjur anna ekki eftirspurn

Vísir tók púlsinn á öðrum dekkja­sölum á landinu. Þar könnuðust allir við að hafa heyrt af þessu vanda­máli en það hefur mis­mikil á­hrif á dekkja­salana:

„Ég hef heyrt þetta sama og þú ert að vitna í og eitt­hvað finnst mér til­finning mín vera sú að það sé skortur á markaðinum en þetta er enginn skortur hjá okkur heldur eru bara smá tafir í af­hendingunni á á­kveðnum dekkjum sem koma svona tveimur vikum á eftir á­ætlun í ár,“ segir Sigur­jón Árni Ólafs­son, fram­kvæmda­stjóri hjá MAX1, sem pantar öll sín dekk frá Nokian í Finn­landi.

Sigurjón Árni Ólafsson, framkvæmdastjóri MAX1.aðsend

„Pantanirnar voru stærri í ár heldur en að verk­smiðjan gat fram­leitt. Og þá snýst þetta bara um hvað menn voru dug­legir að byrja að panta. Og ég byrjaði að panta í apríl á árinu, þannig ég er kominn með stærstan hlutann til mín nú þegar.“

Fjallað hefur verið um dekkja­skort á heims­vísu í er­lendum fjöl­miðlum en hann má rekja til á­hrifa kórónu­veirufar­aldursins og þess þegar verk­smiðjur í fjölda landa urðu að loka. Því hefur verið erfitt að fá stál, plast, gúmmí og fleiri hrá­efni til dekkja­gerðar.

Fara aðrar leiðir til að redda dekkjum

Klettur hefur einnig lent í nokkrum vand­ræðum:

„Þetta er alla­vega ekki eins ein­falt og þetta hefur verið þar sem við höfum bara getað pantað á vorin fyrir veturinn og fengið svona eigin­lega allt sem við þurfum,“ segir Andri Ellerts­son, rekstrar­stjóri hjól­barða hjá Kletti.

„Núna hefur þetta allt dregist svo­lítið þannig maður er svona að reyna að redda sér hér og þar. Þannig að já, það má kannski alveg segja að það gæti alveg orðið ein­hver skortur í nokkrum stærðum.“

Hann tekur undir á­hyggjur Jóhanns af sendingar­kostnaðinum frá Asíu. „Verðið er náttúru­lega búið að fara upp og er orðið alveg út í hött.“

Erfiðast verður að fá verksmiðjunegld vetrardekk í ár. vísir/vilhelm

Einar Þór, sem sér um heild­sölu hjá Nes­dekkjum, segir vöru­skort hjá flestum í heiminum en að Nes­dekk hafi tekist að redda flestum sendingum sem fyrir­tækið þarf fyrir veturinn. Það hafi þó verið mun erfiðara í ár en venju­lega.

„Flutnings­kostnaðurinn er náttúru­lega bara kominn út í bull. En þá bara spilar maður leikinn að­eins öðru­vísi og notar Evrópu­birgjana að­eins meira. En jú, þetta er náttúru­lega erfiðari staða en í fyrra,“ segir hann.

Dagur Benónýs­son, deildar­stjóri hjól­barða­deildar hjá N1, segir þá að sitt fyrir­tæki hafi sloppið við allan dekkja­skort, sem hann hefur þó heyrt af: „Við sleppum alveg þokka­lega frá þessu. Það hefur gengið mis­vel hjá mönnum að fá dekk en við vorum þokka­lega snemma í þessu. Þetta eru líka aðal­lega þeir sem eru að fá dekk af­hent frá Kína, sem þetta bitnar á.“

Veturinn virðist nokkuð snemma á ferðinni í ár víða um land. Því er ekki eftir neinu að bíða fyrir þá sem verða að næla sér í vetrar­dekk í ár, sér­stak­lega ef þau verða af skornum skammti þegar líður á veturinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×