Fótbolti

Gummi Tóta með frá­bært auka­spyrnu­mark í MLS í nótt: Sjáðu markið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Þórarinsson hafði svo sannarlega ástæðu til að brosa eftir markið sitt fyirr New York City liðið í nótt.
Guðmundur Þórarinsson hafði svo sannarlega ástæðu til að brosa eftir markið sitt fyirr New York City liðið í nótt. Getty/Ira L. Black

Íslenski landsliðsbakvörðurinn Guðmundur Þórarinsson var á skotskónum með New York City liðinu í bandarísku MLS-deildinni í nótt.

Guðmundur, eða Gummi Tóta sem flestir vilja kalla kappann, tryggði sínu liði 1-1 jafntefli á útivelli á móti Atlanta United með frábæru aukaspyrnumark á 89. mínútu.

Guðmundur var ekki í byrjunarliðinu en kom inn á völlinn á 61. mínútu þegar New York liðið var búið að vera undir frá sautjándu mínútu.

Aukaspyrnan var fyrir aftan og hægra megin við vítateigsbogann. Guðmundur náði föstu og hnitmiðuðu skoti upp í bláhornið, algjöra óverjandi fyrir markvörð Atlanta United.

Leikurinn fór fram í Mercedes-Benz leikvanginum þar sem NFL-liðið Atlanta Falcons spilar heimaleiki sína. Þetta er örugglega eitt fallegasta fótboltamarkið sem hefur verið skorað á þessum nýlega leikvangi.

Þetta var annað mark Guðmundar á leiktíðinni en hann skoraði einnig í stórsigri á Cincinnati í apríl. Það mark kom einnig með skoti beint út aukaspyrnu.

Það má sjá markið hér fyrir ofan og það má alveg mæla með því að Guðmundur fái að taka aukaspyrnur fyrir íslenska landsliðið á næstunni.

MLS



Fleiri fréttir

Sjá meira


×