Samkvæmt Þjóðhagsspá Landsbankans sem birt var í gær þyrftu átján hundruð fullbúnar íbúðir að koma á markað í landinu að jafnaði á hverju ári.
Sjálfstæðisflokkurinn lagði til í borgarstjórn að nú þegar yrði ráðist í byggingu þrjú þúsund íbúða á Keldnalandinu, í Úlfarsárdal og hér við Umferðarmiðstöðina, steinsnar frá Reykjavíkurflugvelli. Meirihlutinn felldi þá tillögu í gær.
Í Pallborðinu í dag sagði Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík að íbúðir á þéttingarsvæðum væru bæði fáar og mjög dýrar.
„Við erum að segja; byggjum á þessum stöðum þar sem það er hagkvæmt. Ekki bara á dýru stöðunum. Þetta þarf að gera. Við sjáum að húsnæði hefur hækkað gríðarlega. Um fimmtán til sextán prósent að jafnaði og sérbýlið um yfir tuttugu prósent á tólf mánuðum á Íslandi. Þannig að það er augljóst að eftirspurnin er mikil og framboðið of lítið,“ sagði Eyþór.

Reykjavíkurborg hefur lagt áherslu á þéttingu byggðar á undanförnum árum og nýjar íbúðir hafa sprottið upp hér og þar miðsvæðis í borginni. Eftir að Seðlabankinn tók að lækka vexti jókst eftirspurnin eftir húsnæði mjög mikið um mitt síðasta ár og verðið rauk upp úr öllu valdi.
Pawel Bartoszek formaður skipulags- og samgönguráðs sagði Sjálfstæðismenn tala eins og ekkert hefði verið byggt þegar algert met hafi verið slegið með þúsund íbúðum 2019 og fimmtán hundruð í fyrra. Tillaga þeirra kæmi frá klofnasta flokki í skipulagsmálum á byggðu bóli.
„Þið eruð að reyna, vegna þess að þið eruð ósammála um þéttingu. Þið eruð ósammála um flugvöllinn, þið eruð ósammála um þéttingu og hvort byggja eigi í Skerjafirði. Þess vegna dróguð þið fram tillögu um einu reitina í borginni þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er innbyrðis sammála um að þar eigi að byggja,“ sagði Pawel.
Kolbrún Baldursdóttir oddviti Flokks fólksins sagði meirihlutaflokkana í borginni haldna ótrúlegri forræðishyggju. Mikið vantaði upp á að ólíkir hópar fólks stæðu jafnfætis varðandi aðgang að húsnæði. Margir eyddu stórum hluta tekna sinna í húsaleigu.
„Ég vil bara meira. Byggja alls staðar þar sem hægt er að byggja fyrir allt fólk. Sama hvernig efnahagur er. Það þurfa allir þak yfir höfuðið. Það þarf að spýta í lófana núna og það strax á morgun,“ sagði Kolbrún.
Hér má sjá Pallborðið í heild sinni.