Viðskipti innlent

Vest­firðir efstir á lista Lonely Planet yfir bestu á­fanga­staði í heimi 2022

Atli Ísleifsson skrifar
Dynjandisfoss á Vestfjörðum.
Dynjandisfoss á Vestfjörðum. Vísir/Vilhelm

Vestfirðir eru efst á lista yfir svæði til að heimsækja árið 2022 í árlegu vali ferðabókaútgefandans Lonely Planet yfir lönd, svæði og borgir til að heimsækja árið 2022, eða svokallaða Best in Travel viðurkenningu, sem birt var í gærkvöldi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vestfjarðastofu og Íslandsstofu. Þar segir að val Lonely Planet muni beina kastljósi heimsbyggðarinnar að Vestfjörðum sem muni reynast mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu og á Íslandi almennt.

„Á hverju ári tilnefna ferðarithöfundar, bloggarar og starfsfólk Lonely Planet staði fyrir Best in Travel listann, sá listi fer síðan fyrir dómnefnd sem fær það hlutverk að velja 10 staði sem skara frammúr. Hver staður sem er valinn er einstakur, býr yfir ákveðnum „Vá faktor“ og hefur lagt sitt af mörkum til framþróunar sjálfbærrar ferðaþjónustu,“ segir í tilkynningunni.

Að neðan má sjá frétt Stöðvar 2 um straum ferðamanna að fossinum Dynjanda frá í september.

Eiga mikið inni

Haft er eftir Díönu Jóhannesdóttur hjá Vestfjarðastofu að fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu á Vestfjörðum fáist ekki jafn glæsileg viðurkenning og einmitt Best in Travel hjá Lonely Planet.

„Ég hef oft sagt að Vestfirðir eigi mikið inni þegar að kemur að ferðaþjónustu og þarna sjáum við það alveg svart á hvítu að þetta einstaka svæði sker sig úr í samkeppni við alla rómuðustu áfangastaði heimsins,“ segir Díana.

Ennfremur segir frá því að vestfirsk ferðaþjónusta hafi lagt mikla áherslu á sjálfbæra uppbyggingu og sé það ein af ástæðum þess að Vestfirðir séu í dag með silfurvottun frá umhverfissamtökunum EarthCheck. Náttúran og samfélögin á Vestfjörðum séu okkar helstu auðlindir og við verðum að hlúa að þeim til frambúðar.

Listar Lonely Planet yfir bestu áfangastaðina 2022

Topp tíu lönd:

  1. Cookeyjar
  2. Noregur
  3. Máritíus
  4. Belís
  5. Slóvenía
  6. Angvilla
  7. Óman
  8. Nepal
  9. Malaví
  10. Egyptaland

Topp tíu landsvæði

  1. Vestfirðir, Ísland
  2. Vestur-Virginía, Bandaríkin
  3. Xishuangbanna, Kína
  4. Ströndin í Kent, Bretland
  5. Púertó Ríkó
  6. Shikoku, Japan
  7. Atacama-eyðimörkin, Chile
  8. Scenic Rim, Ástralía
  9. Vancouver-eyja, Kanada
  10. Búrgúndí, Frakkland

Topp tíu borgir

  1. Auckland, Nýja-Sjáland
  2. Taipei, Taívan
  3. Freiburg, Þýskaland
  4. Atlanta, Bandaríkin
  5. Lagos, Nígería
  6. Níkósía/Lefkosia, Kýpur
  7. Dublin, Írland
  8. Merida, Mexíkó
  9. Flórens, Ítalía
  10. Gyeongju, Suður-Kórea

Viðurkenning fyrir þróunarstarfið

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, segir þetta frábæra viðurkenningu fyrir það þróunarstarf sem hafi átt sér stað í ferðaþjónustu á Vestfjörðum að fá þessa útnefningu frá Lonely Planet. 

„Það má líka segja að þetta komi á besta tíma, nú þegar við stöndum frammi fyrir því verkefni að vekja áhuga ferðamanna á Íslandi á ný í kjölfar Covid-19 þar sem við munum eiga í harðri samkeppni við önnur lönd. Íslandsstofa mun vinna vel að því að kynna þessa niðurstöðu í samstarfi við Áfangastaðastofu Vestfjarða“ segir Sigríður Dögg.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×