Erlent

Skalf og kastaði upp í af­töku í Okla­homa

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
John Marion Grant var dæmdur til dauða árið 1999.
John Marion Grant var dæmdur til dauða árið 1999.

Hinn sextíu ára gamli John Marion Grant var tekinn af lífi í Oklahoma í Bandaríkjunum fyrr í dag. Grant hlaut dauðadóminn fyrir að hafa stungið starfsmann mötuneytis í fangelsi árið 1998. Áður hafði hann verið dæmdur í 130 ára fangelsi fyrir rán.

Grant var sprautaður með lyfinu midazolam, sem er róandi lyf jafnan notað til svæfinga. Skömmu eftir sprautuna hóf hann að hristast og kastaði upp. 

Meðlimir aftökusveitarinnar skárust í leikinn og sáu áhorfendur starfsmenn þurrka ælu af andliti og hálsi Grants. Í kjölfarið öskraði hann „Áfram, áfram, áfram!“ og blótaði mjög.

Grant var sprautaður með blöndu af þremur mismunandi lyfjum og missti hann meðvitund fimmtán mínútum eftir fyrstu sprautuna. Hann var úrskurðaður látinn sex mínútum eftir að hafa misst meðvitund.

Grant er fyrsti fanginn til vera tekinn af lífi í sex ár í Oklahoma, eftir röð af misheppnuðum aftökum sem fram fóru á árunum 2014 og 2015. Ríkið hefur nú tekið 113 fanga af lífi síðan árið 1976.

AP News greindi frá.


Tengdar fréttir

Föngum gert að velja á milli af­töku­sveitar eða raf­magns­stóls

Ríkisstjóri Suður-Karólínu í Bandaríkjunum staðfesti lög sem gera föngum á dauðadeild að velja á milli þess að vera teknir af lífi fyrir aftökusveit eða í rafmagnsstól. Lögunum er ætlað að koma aftökum fanga aftur af stað en þær hafa stöðvast vegna skorts á lyfjum sem eru notaðar í banvænar sprautur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×