Sólveig Anna fór á fundinum á föstudag fram á að fá skriflega yfirlýsingu frá starfsfólki þar sem bornar yrðu til baka ofstækisfullar lýsingar úr ályktun trúnaðarmanna. Ella myndi hún segja af sér formennsku. Hið síðarnefnda varð niðurstaðan og tilkynnti Sólveig Anna afsögn sína á Facebook seint á sunnudagskvöld.
Starfsmenn Eflingar segjast hafa unnið af heilum hug samkvæmt þeirri stefnu sem forysta félagsins hafi sett síðustu ár.
„Fjöldi starfsmanna félagsins starfar hér vegna þeirrar baráttu sem Sólveig hefur háð. Þau vandamál sem starfsfólk ræddi, vildi starfsfólk leysa í samvinnu við yfirmenn. Yfirlýsingin á föstudag var ekki sett fram í þeim tilgangi að lýsa vantrausti eða hrekja nokkurn úr starfi. Hún var hugsuð sem fyrsta skref á leið til lausnar.“
Starfsfólk segist, sem endranær, vinna fyrir félagsmenn með þeirra hag fyrir brjósti.
Sólveig Anna sagði á sunnudagskvöld að henni fyndist ótrúlegt að það væri í raun starfsfólk Eflingar sem væri að hrekja hana úr starfi sínu sem formaður félagsins. Starfsfólkið hafi gert það með því að leyfa andstæðingum félagsins að hossa sér á ýkjum, lygum og rangfærslum um sig og samverkafólk hennar.
„Starfsfólk Eflingar hefur kosið að svipta mig því vopni sem hefur gert mér mögulegt að leiða sögulega og árangursríka baráttu verka- og láglaunafólks síðustu ár, mannorði mínu og trúverðugleika,“ sagði Sólveig Anna.
Trúnaðarmenn Eflingar eru ekki nafngreindir í yfirlýsingunni sem send var af netfanginu kynningarmal@efling.is.