Fótbolti

Eriksen gæti snúið aftur til Ajax

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Christian Eriksen gæti snúið aftur til Hollands þar sem hann hóf atvinnumannaferil sinn.
Christian Eriksen gæti snúið aftur til Hollands þar sem hann hóf atvinnumannaferil sinn. Mattia Ozbot - Inter/Inter via Getty Images

Danski knattspyrnumaðurinn Christian Eriksen gæti snúið aftur til hollenska knattspyrnufélagsins Ajax, en eins og áður hefur komið fram má leikmaðurinn ekki spila með Inter á Ítalíu þar sem að gangráður var græddur í hann eftir að hann fór í hjartastopp í leik á EM í sumar.

Eriksen gæti í raun tæknilega spilað aftur á Ítalíu, en þá þurfa læknar hans að sanna að tímabundin veikindi eða vírus hafi valdið hjartastoppinu. Reglur frá árinu 2017 koma hins vegar í veg fyrir að hann spili þar í landi eins og er.

Í mörgum öðrum evrópskum deildum er þó leyfilegt að spila með gangráð líkt og var græddur í Eriksen, og samkvæmt ítalska miðlinum Il Corriere dello Sport hefur Daninn áhuga á að snúa aftur til Ajax þar sem hann hóf atvinnumannaferil sinn.

Eriksen yrði þá ekki eini leikmaður liðsins sem myndi leika með gangráð, en varnarmaðurinn Daley Blind leikur með liðinu. Hann fékk græddan í sig gangráð árið 2019.

Ef Eriksen yfirgefur Inter búast forsvarsmenn félagsins ekki við því að fá greitt fyrir leikmanninn. Það myndi þó spara þeim launakostnað sem er um sjö og hálf milljón evra á ári.

Samkvæmt heimildum ítalska miðilsins verða allar ákvarðanir sem ítalska félagið tekur  varðandi framtíð leikmannsins teknar í samráði við hann og hans fólk, en samband hans og félagsins er sagt vera mjög gott.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×