Þessar tvær þjóðir eru ábyrgar fyrir um 40 prósentum af öllum koltvísýringi sem sleppur út í andrúmsloftið og því skipta ákvarðanir þeirra miklu máli. Að auki hafa samskipti ríkjanna ekki verið með besta móti síðustu ár og því kom það mörgum á óvart að þau séu nú tilbúin til að slíðra sverðin til að takast á við vandann.
Búist er við því að Joe Biden forseti Bandaríkjanna og Xi Jinping, forseti Kína, hittist á Zoom-fundi jafnvel strax í næstu viku til að ræða þessi mál betur. Antonio Guterres framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði yfirlýsinguna skref í rétta átt og undir það tekur yfirmaður ESB í loftslagsmálum, Frans Timmermans.
Samkomlag stórveldanna kveður á um að þau auki samvinnu sína og hraði aðgerðum til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til að mæta markmiðum Parísarsamkomulagsins. Kínversk stjórnvöld samþykktu jafnframt í fyrsta skipti á taka á leka metangass. Ríkin tvö ætla að deila tækni til þess að koma í veg fyrir losun metans sem er enn öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur en skammlífari í andrúmsloftinu.
Bæði ríki ætla að uppfæra landsmarkmið sín um samdrátt í losun fyrir árið 2035 eftir fjögur ár. Kínastjórn ætlar ennfremur að gera sitt besta til að hraða áformum um að draga úr kolanotku á seinni helmingi þessa áratugs, að sögn AP-fréttastofunnar.
Yfirlýsing ríkjanna kom mörgum á óvart í gær. Þau hafa eldað grátt silfur saman vegna ýmissa mála að undanförnu. Joe Biden Bandaríkjaforseti skaut meðal annars á Xi Jinping, forseta Kína, og Vladímír Pútín, forseta Rússlands, fyrir að þeir mættu ekki á loftslagsráðstefnuna í síðustu viku.
„Þetta gagnast ekki aðeins löndunum okkar tveimur heldur öllum heiminum, að tvö stórveldi í heiminum, Kína og Bandaríkin, axli sérstaklega alþjóðlega ábyrgð og skyldur,“ sagði Xie Zhenhua, sendifulltrúi Kína á loftslagsráðstefnunni.