Innlent

Óttast að sala Mílu fái litla um­fjöllun vegna starfa kjör­bréfa­­nefndar

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Oddný G. Harðardóttir telur tvær vikur of knappan tíma fyrir þingið til að fara vel yfir söluna á Mílu.
Oddný G. Harðardóttir telur tvær vikur of knappan tíma fyrir þingið til að fara vel yfir söluna á Mílu. vísir/vilhelm

Þing­maður Sam­fylkingarinnar í þjóðar­öryggis­ráði hefur á­hyggjur af því að þingið fái ekki nægan tíma til að fjalla um söluna á Mílu vegna starfa undir­búnings­kjör­bréfa­nefndar. Frestur til að stöðva söluna rennur út eftir mánuð

Samningar voru kláraðir við fjár­festinga­fé­lagið Ardian France seinni part síðasta mánaðar.

Þjóðar­öryggis­ráð hefur átt nokkra fundi um söluna en Míla sér um rekstur og á stærstan hluta ljós­leiðara­kerfis Ís­lands.

Þing­kona Sam­fylkingarinnar segir ljóst hve mikil­væg starf­semi fyrir­tækisins sé fyrir al­manna­hag og óttast að net­öryggi Ís­lendinga verði háð geð­þótta er­lends fjár­festinga­fé­lags.

„Það væri full­kom­lega ó­eðli­legt og ég leyfi mér að segja glap­ræði að ætla að ganga frá þessari sölu án þess að Al­þingi Ís­lendinga fái að fjalla um skil­yrðin,“ segir Odd­ný G. Harðar­dóttir, sem á sæti í þjóðar­öryggis­ráði.

Þeim skil­yrðum verði hugsan­lega að fylgja laga­setningar og þingið þurfi því góðan tíma.

Gangi ekki að ríkisstjórnin yppi bara öxlum

Ráð­herra hefur heimild til að stöðva söluna allt að átta vikum frá því að samningar voru gerðir. Sá frestur rennur út 17. desember.

En störf undir­búnings­kjör­bréfa­nefndar hafa gengið mun hægar en margir höfðu vonast eftir.

Nefndin lauk gagna­öflun sinni síðasta föstu­dag og hóf þá í fyrsta skipti að ræða málið efnis­lega af al­vöru. Sam­kvæmt heimildum frétta­stofu voru nokkuð skiptar skoðanir meðal nefndar­manna um lausnir á málinu en haldið verður á­fram að reyna að finna sam­eigin­lega leið á lokuðum fundi nefndarinnar í dag.

For­menn ríkis­stjórnar­flokkanna hafa sagt að þeir muni ekki kynna nýjan stjórnar­sátt­mála fyrr en nefndin hefur lokið sínum störfum.

„Mér finnst það ekki ganga að ríkis­stjórn Ís­lands yppi bara öxlum og segi: „Við ráðum ekki við það að það séu ein­hver vand­ræði þarna í Norð­vestur­kjör­dæmi.“ Og láti söluna ganga þegjandi og hljóð­laust í gegn,“ segir Odd­ný.

Tvær vikur versti kostur í stöðunni

En þing verður að koma saman innan við 10 vikum frá kosningum en sá frestur rennur út 4. desember.

Þá hefði það tvær vikur til að fjalla um söluna á Mílu. Væri það nóg?

„Ég held að það sé af­skap­lega knappur tími og það er ein­mitt það sem ég óttast. Að það verði sett ein­hver skil­yrði á borð fyrir framan okkur Al­þingis­menn og við okkur verði sagt: „Þið verðið að sam­þykkja þetta því annars fer salan at­huga­semda­laust í gegn“,“ segir Odd­ný G. Harðar­dóttir, þing­maður Sam­fylkingarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×