Skoðun

Grænni Reykja­víkur­borg – raf­ræn og blað­laus!

Kolbrún Baldursdóttir skrifar

Flokkur fólksins hefur lagt fram þá tillögu í borgarráði að frá og með árinu 2023 hætti Reykjavíkurborg og stofnanir hennar að kaupa dagblöð í blaðaformi fyrir aðra en þá eru ófærir um að nýta rafrænar áskriftir, svo sem vegna fötlunar eða öldrunar. Að öðru leyti kaupi borgin eingöngu rafrænar blaðaáskriftir.

Mikilvægt er að Reykjavíkurborg sé í fararbroddi í umhverfismálum og sýni þar frumkvæði og framsýni. Þörfin fyrir prentað mál minnkar stöðugt. Þar á Reykjavíkurborg að vera árvökul og í fararbroddi. Nýta rafrænar áskriftir og færa útgáfu sína í sömu átt þar sem þess er kostur. Minna má á að núverandi meirihluti hefur mært mjög rafræna ferla. Nýverið gaf borgin út 64 bls. bækling: „Uppbygging íbúða í borginni“ sem hægt hefði verið að koma til borgarbúa með einum smelli í stað þess að prenta og dreifa á öll heimili með tilheyrandi stóru kolefnisspori. Það er ekki gott fordæmi og illa farið með skattfé almennings.

Kolefnisfótspor þess eitt og sér að prenta eitt blað jafngildir akstri meðalbíls um 1 km fyrir utan það að koma dagblöðum frá prentsmiðju í hverfin til viðtakenda. Árleg áskrift getur þannig numið kolefnisspori af akstri samsvarandi um 250 km á bifreið. Umhverfislegur ávinningur er því augljós.

Með þessu umhverfisskrefi á borgin alls ekki að minnka stuðning við útgáfustarfsemi. Slíkt er alls ekki tilgangur þessar tillögu. Stuðningur í formi kaupa á fjölmiðlum á að halda áfram. Þetta er eingöngu hugsað sem góð viðleitni og fordæmi í baráttunni við umhverfismengun og sóun.

Í baráttu okkar gegn umhverfismegnun skiptir allt máli og dropinn holar steininn.

Höfundur er oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×