Þetta segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá heilsugæslunni, í samtali við fréttastofu. Í dag voru gefnir sjö þúsund örvunarskammtar með bóluefni Pfizer.
Efnið er notað sem örvunarskammtur óháð því hvort fólk hafi áður fengið bólusetningu með Pfizer eða öðru efni. Eina skilyrðið er að fimm mánuðir hafi liðið frá því fólk fékk síðustu sprautu.
Ragnheiður segir að búið sé að boða langstærstan meirihluta þeirra sem gjaldgengir eru í örvunarbólusetningu. Svo vel hafi gengið að boða fólk að til skoðunar sé hjá heilsugæslunni að hafa svokallaðan opinn dag í Laugardalshöll á miðvikudag, þar sem þeir sem fengið hafa boðun en ekki séð sér fært að mæta geti komið og fengið sprautu.