„Það er ekkert leyndarmál að það eru mýs hlaupandi hérna út um allt hótel. Það er ekkert bara á einu herbergi, heldur bara á öllu hótelinu. Þetta er auðvitað óboðlegt,“ segir Ágúst Jóhannsson, þjálfari íslenska liðsins, í samtali við RÚV.
Haukagoðsögnin Harpa Melsteð á dóttur í liðinu, Thelmu Melsteð Björgvinsdóttur, og birti hún myndskeið á Twitter af hótelinu í Belgrad þar sem sjá má mús læðast um á einu hótelherbergjanna.
Óþrifnaður, táneglur og fleira gums var eitthvað sem maður sá í mööörgum landsliðsferðum í gegnum tíðina
— Harpa Melsteð (@harpamel) November 22, 2021
Ég get sagt ykkur að ég hefði ekki hvílst í 1 sek ef það hefði verið músagangur í herberginu mínu eins og U-18 landsliðið okkar er að upplifa í Serbíu,ekki boðlegt pic.twitter.com/9pOmAtfpJp
„Við erum auðvitað búin að kvarta og það er verið að vinna í málinu. En þetta er bara algjör viðbjóður,“ sagði Ágúst við RÚV.
Ágúst segir að músagangurinn hafi auðvitað áhrif á ástand leikmanna og geri þeim erfiðara fyrir með að hvílast.
Það kom þó ekki að sök í gær þegar Ísland vann fyrsta leik sinn á mótinu, þar sem fjögur lið berjast um eitt sæti á EM 2023.
Ísland vann Slóveníu 24-21 á meðan að heimakonur í Serbíu unnu Slóvakíu 30-20. Lilja Ágústsdóttir fór fyrir íslenska liðinu og skoraði átta mörk en staðan var jöfn í hálfleik, 9-9.
Í dag mætir Ísland liði Slóvakíu en Serbía og Slóvenía mætast. Á fimmtudaginn ræðst svo hvaða lið mun eiga fulltrúa á EM U17 og EM U19 árið 2023, þegar lokaleikirnir fara fram.