„Þetta eru gríðarlegir orðsporshnekkir fyrir okkur sem þjóð. Gríðarlegir. Við sjáum líka þarna í myndinni að forstjóri Ísteka reynir ekki bara að koma í veg fyrir að myndin sé birt, heldur er hann greinilega staddur á þessum sérstaka bæ þar sem myndin er aðallega tekin,“ segir Inga og talar þar um Arnþór Guðlaugson, forstjóra Ísteka.
Ísteka er líftæknifyrirtæki sem ber ábyrgð á blóðtöku mera á Íslandi. Blóðið er tekið úr fylfullum hryssum og unnið úr því hormón sem síðan er notað til að auka frjósemi svína til manneldis.
Óafsakanlegt
„Við, íslenska samfélagið, höfum kostað milljörðum króna í landkynningu fyrir okkur og bjóða okkar gestum og ferðamönnum heim að sækja okkar fallega og hreina land, og fest sig ásýnd. Orðsporshnekkir sem koma núna fram eru bara óafsakanlegir. Þetta er ekkert sem við getum ekki lagt af og komið þá til móts við þá bændur sem eru góðir bændur og virkilega langar að vera í sveitinni sinni. Íslenska ríkið skal þá bara gjöra svo vel að aðstoða þá við að geta lifað af sínum bújörðum,“ segir Inga.
Inga, fyrir hönd Flokks fólksins auk tveggja þingmanna Pírata, lagði í mars fram frumvarp þar sem hún lagði til bann við blóðtöku mera hér á landi. Frumvarpið fékk hins vegar lítinn gaum á þingi. Inga telur að þar séu þrýstihópar og hagsmunaöfl að baki.
Ekkert annað en dýraníð
„Það eru miklir hagsmunir þarna undir og svona sterkir þrýstihópar sem hafa kannski getað haft áhrif, ætli það sé ekki meginástæðan. En hins vegar þá dregur þessi mynd raunveruleikann fram í dagsljósið – að minnsta kosti raunveruleikann hvað lítur að einhverjum sem stundar þennan svokallaða blóðmerabúskap.“
Hún ætlar að leggja fram nýtt frumvarp um leið og nýtt þing kemur saman.
„Þetta er ekkert annað en dýraníð. Bara hroðalegt dýraníð. Þetta fer í algjöran forgang hjá okkur og ég er núna að leita eftir dýravinum á Alþingi Íslendinga sem vilja vera með okkur í málinu.“