Til skoðunar er að gera þríbólusetta undanþegna sóttkvíarskyldu en samkvæmt heimildum fréttastofu. Fyrst var greint frá málinu í Fréttablaðinu í morgun.
Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, segir í samtali við fréttastofu í dag að ýmislegt sé til skoðunar í þessum efnum á þessari stundu.
Samkvæmt núverandi reglugerð er hægt að ljúka sóttkví að fimm dögum liðnum, að því gefnu að henni ljúki með neikvæðu PCR prófi. 128 greindust með kórónuveiruna innanlands í gær, þar af 69 í sóttkví.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur ítrekað sagt að hann bindi miklar vonir við örvunarskammt bóluefnisins. Þá hvetur hann alla sem hafa ekki enn fengið bólusetningu að gera það.
„Það er bara mjög nauðsynlegt að við reynum með þessi ellefu prósent, sem hefur verið boðin bólusetning en eru ekki að mæta, það er mjög nauðsynlegt að við reynum að ná í það fólk, alla vega eins mikið og við getum,“ segir Þórólfur.
„Þetta er mjög blandaður hópur, alls konar fólk, og við þurfum bara að gera okkar besta til að ná þeim.“