Þingsetningarfundur Alþingis hefur staðið óvenju lengi eða frá því forseti Íslands setti þingið á þriðjudag fyrir viku. Ástæðan er að leggja verður fram fjárlagafrumvarp á fyrsta þingfundi en frumvarpið kom ekki fram fyrr en í gær. Þingstörf töfðust eins og kunnugt er vegna starfa kjörbréfanefndar.
Í dag lýkur fyrsta þingfundi þegar kosið verður í embætti forseta Alþingis, í forsætisnefnd þingsins, aðrar fastanefndir og alþjóðanefndir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir starfsaldursforseti þingsins og formaður Viðreisnar hefur stýrt fundum þingsins frá því það koma saman. Þeim störfum líkur þegar þingið tekur loks að fullu til starfa á fullveldisdaginn 1. desember.
„Mér finnst það nokkuð viðeigandi að við erum í dag að sjá fram á að þingið geti hafið störf,“ segir Þorgerður Katrín.

Eftir að Birgir Ármannsson sem er tilnefndur í embætti forseta hefur verið kosinn ásamt sex varaforsetum í forsætisnefnd og aðrir þingmenn í fastanefndir verður samkvæmt hefð dregið um hvar í þingsalnum þingmenn munu sitja.
Eiginlegar þingumræður verða hins vegar ekki á þessum fundi fyrr en í kvöld þegar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flytur fimmtu stefnuræðu sína en þá fyrstu fyrir þá ríkisstjórn sem tók við völdum á Bessastöðum á sunnudag.
Þorgerður Katrín segir mikilvægt að meirihlutinn á Alþingi hafi í huga að þingmeirihlutar komi og fari.

„Miklu skiptir að löggjafarvaldið geti á hverjum tíma sinnt sínu hlutverki af krafti. Eftirlits- og aðhaldshlutverki með framkvæmdavaldinu og sinnt löggjafarstörfum. Þess vegna er fagnaðarefni að við séum að koma saman í dag eftir allan þennan biðtíma eftir því að þing geti komið saman,“ segir starfandi forseti Alþingis.
Frá og með umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra hefst alvaran á þingi. Þorgerður Katrín segir umhugsunarefni hvernig meirihlutinn hafi umgengist þingið á undanförnum vikum og mánuðum.
„Það verða eflaust fluttar kjarnyrtar ræður í kvöld og verður ávísun á það sem koma skal. Mér sýnist nú á öllu að ríkisstjórnin muni ekki fá neina hveitibrauðsdaga. Enda er þetta bara gamla ríkisstjórnin,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.