Erlent

Nokkur Evrópuríki stefni á að snúa aftur til Afganistan

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Macron tilkynnti fyrirætlanirnar í morgun.
Macron tilkynnti fyrirætlanirnar í morgun. Getty/Chesnot

Nokkur Evrópuríki vinna nú að því saman að koma á pólitísku sambandi við stjórnvöld Talíbana í Afganistan. Stefnan er sett á að sendiherrar ríkjanna geti snúið saman aftur til Afganistan að sögn Emmanuels Macron Frakklandsforseta.

Vestræn ríki hafa undanfarnar vikur reynt að koma upp stefnu um pólitísk og diplómatísk samskipti við Talíbanana eftir að þeir rændu skyndilega völdum í Afganistan í ágúst. Flest vestræn ríki lokuðu sendiráðum sínum þegar Talíbanarnir náðu völdum í höfuðborginni Kabúl og fluttu alla starfsmenn senndiráðanna heim. 

„Við erum að íhuga að mynda sam-Evrópska stofnun... stofnun þar sem nokkur evrópsk ríki geta nýtt í sameiningu, sem myndi leyfa sendiherrunum okkar að vera á staðnum,“ sagði Macron í morgun í samtali við fréttamenn í Doha í Sádi-Arabíu, þar sem hann er nú í embættisferð. 

Bæði Bandaríkin og Evrópuríki hafa verið hikandi með að stofna til diplómatísks sambands við stjórnvöld Talíbana og hafa sakað þá um að standa ekki við loforð um réttindi kvenna og minnihlutahópa í landinu.

Talíbanar og Evrópusambandið funduðu í síðustu viku og sagði sambandið í yfirlýsingu að loknum fundinum að vonandi gæti það sent sendinefnd til Afganistan fljótlega. 

„Samningamenn Evrópusambandsins lögðu áherslu á að sambandið væri með einhverja viðveru í laninu, sem þýðir ekki að sambandið samþykki eða viðurkenni lögmæti stjórnvalda í landinu. Þetta stendur þó og fellur með stöðu öryggis í landinu og sitjandi stjórnvöld þurf að tryggja starfsmönnum Evrópusambandsins öryggi,“ sagði í yfirlýsingunni. 


Tengdar fréttir

Senda hundruð Talibana gegn Íslamska ríkinu

Talibanar ætla að auka á þrýsting þeirra gegn Íslamska ríkinu í Afganistan. Hundruð Talibana hafa verið sendir til austurhluta landsins þar sem þeir eiga að herja á vígamenn ISIS.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×