Fótbolti

Roma ekki í vand­ræðum gegn Spezia

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Markaskorarar Roma í kvöld.
Markaskorarar Roma í kvöld. Giuseppe Maffia/Getty Images

Lærisveinar José Mourinho í Roma voru ekki í teljandi vandræðum gegn Spezia er liðin mættust í eina leik dagsins í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni.

Það má segja að ensk samvinna hafi verið lykillinn að því að Roma komast yfir í kvöld. Enski miðvörðurinn Chris Smalling hélt sæti sínu í byrjunarliði Roma þrátt fyrir töp í síðustu tveimur deildarleikjum liðsins. 

Hann kom boltanum í netið strax á sjöttu mínútu eftir sendingu framherjans Tammy Abraham.

Staðan því orðin 1-0 snemma leiks og þannig var hún allt fram á 56. mínútu þegar Roger Ibanez, annar af þremur miðvörðum Roma, tvöfaldaði forystu Rómverja. 

Þó mörkin hafi ekki orðið fleiri þá nældi hinn ungi Felix Afena-Gyan sér í tvö gul spjöld eftir að hafa komið inn á sem varamaður þegar rúm klukkustund var liðin. Rómverjar voru því 10 inn á vellinum er flautað var til leiksloka. Það breytti ekki gangi mála og lærisveinar Mourinho komnir aftur á beinu brautina.

Roma situr í 6. sæti með 28 stig að loknum 17 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×