Fyrsti áfangi Miklubrautarstokksins mun ná frá Snorrabraut að gatnamótum Miklubrautar við Rauðarárstíg. Þegar stokkurinn er tilbúinn mun draga mjög úr umferðarhávaðanum sem einkennir þetta svæði og borgarlínan líða hjá í mikilli friðsæld.
Ofanjarðar er gert ráð fyrir allsherjarborgargötu með hjólastígum og grænni ásýnd. Hér fyrir neðan má til dæmis sjá hugmynd frá Jakobi Jakobssyni arkítekt að útfærslu á yfirbyggingu gatnamóta Snorrabrautar og Miklubrautar.
Norðurmýrin er á vinstri hönd en lituðu byggingarnar fyrir miðju, sem yrðu bæði atvinnu- og íbúðarhúsnæði, eru ekki til - enn þá, að minnsta kosti. Nú er kallað eftir umsögnum íbúa um tillögur en framkvæmdir haldast í hendur við nýbyggingu Landspítala.
„Undirbúningur er rétt að hefjast. Það er verið að skoða þessar hugmyndir og tillögur sem eru kynntar á vefnum okkar. Og ég held að þetta umhverfi verði gjörbreytt eftir fimm ár,“ segir Ævar Harðarson, deildarstjóri hverfisskipulags Reykjavíkurborgar.
„Ég held þetta verði einhverjar mestu breytingar í borginni fyrir þau hverfi sem liggja að Miklubrautinni.“
Þá eru uppi hugmyndir um að reisa nýbyggingar þétt upp við Miklubraut og Háaleitisbraut. Þær eru táknaðar með lit á þessari mynd en hvítu byggingarnar eru húsin sem fyrir eru á svæðinu. Ævar hefur ekki áhyggjur af hljóðmengun svo þétt upp við Miklubrautina - en ekki er áætlað að stokkurinn nái þangað.
„Besta hljóðvörn sem hægt er að fá, það er í nýbyggingum sem er þá hægt að hanna þannig að þær séu með góðar hljóðvarnir. Þetta er verið að gera annars staðar, það er verið að breyta svona veghelgunarsvæðum inni í Helsinki til dæmis í breiðstræti,“ segir Ævar.