Innlent

Ungmenni réðust á strætóbílstjóra

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og nótt.
Lögregla hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til rétt fyrir klukkan 21 vegna slagsmála í strætó en samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni réðust ungmenni á bílstjóra bifreiðarinnar. 

Foreldrar og barnavernd voru kölluð til en nánari upplýsingar er ekki að finna í tilkynningu.

Lögregla sinnti annars mörgum og fjölbreyttum verkefnum í gærkvöldi og nótt og var meðal annars þrisvar kölluð til vegna ónæðis. Í eitt skiptið var um að ræða ölvaðan mann í sameign fjölbýlishúss, sem var læstur úti. Tókst lögreglu að aðstoða hann við að komast inn.

Í miðborginni var maður handtekinn rétt fyrir klukkan 18 fyrir vörslu fíkniefna og blygðunarsemisbrot. Skömmu síðar var annar handtekinn vegna ógnandi tilburða en sá var einnig ölvaður.

Þá var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna ágreinings í verslun og vegna farþega leigubifreiðar, sem neitaði að greiða fargjaldið. 

Í umdæminu sem nær yfir Grafarvog, Mosfellsbæ og Árbæ var tilkynnt um menn í bifreið fyrir utan veitingastað. Báðir voru ölvaðir og lyklar teknir af þeim til að koma í veg fyrir akstur. Þá var maður handtekinn vegna mögulegra brota á vopnalögum en maðurinn er jafnframt grunaður um hótanir og líkamsárás. Málið er í rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×