Innlent

„Það er ekki bannað að hafa gaman“

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Frá tónleikunum í kvöld. Baggalútur hefur undanfarin ár stimplað sig inn sem einhver vinsælasta jólaskemmtun Íslendinga.
Frá tónleikunum í kvöld. Baggalútur hefur undanfarin ár stimplað sig inn sem einhver vinsælasta jólaskemmtun Íslendinga. Elli Gunnars

Bagga­lútur harmar mjög ef að sótt­varna­brot voru framin á tón­leikum þeirra í gær eins og lög­reglan greindi frá í dag. Hljóm­sveitin hafi látið al­manna­varnir taka út fyrir­komu­lag viðburðarins í síðustu viku til að passa að allt væri í sam­ræmi við gildandi reglur og eina brotið sem með­limir hljóm­sveitarinnar hafi tekið eftir í gær hafi verið grímu­leysi margra gesta, sem er ef­laust vanda­mál við flesta við­burði í dag.

Við jóla­tón­leika Bagga­lúts eru tvö að­skilin hólf með sér­inn­göngum, gestir sitja í númeruðum sætum og fara í hrað­próf. Ekkert hlé er á tón­leikunum og á­fengis­sala ekki leyfð nema fyrir tón­leikana. Það er að segja: allt er innan rammans.

Lög­regla sem var við­stödd svæðið í gær var þar meira að segja í boði hljóm­sveitarinnar, sem vildi þannig að­stoð við að halda hlutunum ná­kvæm­lega eins og þeir ættu að vera.

„Við erum bara að reyna að gera þetta vel og finnst þetta eigin­lega mjög leiðin­legt að fá eitt­hvað svona,“ sagði Bragi Valdimar Skúla­son, einn með­limur Bagga­lúts. Hann var ný­stiginn af sviði þegar frétta­stofa náði tali af honum eftir aðra tón­leika kvöldsins, þá sex­tándu allt í allt. „Og það var allt með feldu í kvöld, ná­kvæm­lega eins og það á að vera.“

„Okkur þykir auð­vitað mjög leiðin­legt að það hafi verið drykkja í gær. En það fylgir tón­leikum. Við getum ekki bannað fólki að fá sér að drykki fyrir tón­leikana. Þannig eru ekki reglurnar núna,“ segir Bragi.

Hann segir al­menna á­nægju með tón­leikana meðal gesta. Mark­miðið sé að koma saman, gleðjast og hafa gaman. Eins og hann bendir rétti­lega á: „Það er ekki bannað að hafa gaman - ennþá allavega .“

Bragi Valdimar Skúlason, tónlistarmaður í Baggalúti.Vísir/Friðrik Þór

Geta ekki borið á­byrgð á ölvun Vestur­bæinga

„Við erum að gera þetta eftir öllum reglum. Við buðum lög­reglunni að koma hingað í gær. Þetta var ekki út­kall sem slíkt. Þeir komu hingað til að fylgjast með og hér eru líka öryggis­verðir út um allt. En auð­vitað var ölvun. Sér­stak­lega á laugar­dags­kvöldi, það er alveg ljóst.“

Þannig hafi margir greini­lega verið á djamminu í gær­kvöldi eins og víða annars staðar. Gestir tón­leikanna eru þó allir komnir út úr Há­skóla­bíói fyrir klukkan 23 eftir alla tónleika.

„Við getum náttúru­lega ekki borið á­byrgð á ölvun fólks í Vestur­bænum eftir mið­nætti,“ segir Bragi.

Bragi segir að enn sem komið er hafi engin smit verið rakin til neinna af 16 tón­leikum Bagga­lúts.

„Við viljum bara trúa því að hrað­prófin og grímurnar séu að virka. Ég meina það sátu allir hér í kvöld með sínar grímur.“

Það hafi þó verið það eina sem með­limir hljóm­sveitarinnar tóku eftir að væri í ó­lagi í gær; að margir gestanna losuðu sig við grímuna þegar komið var í sætin. Þó séu öryggis­verðir á svæðinu sem bendi þeim reglulega á að setja grímurnar upp. 

Og það má full­yrða að þetta sé víð­tækara vanda­mál en hjá Bagga­lúti, það getur blaða­maður stað­fest eftir að hafa sótt þó­nokkra við­burði upp á síð­kastið.

Við­burðir eiga rétt á sér

„Þetta er leiðin­legt en við viljum samt meina það að það er mikil­vægt að geta haldið svona við­burði og haldið ein­hverja skemmtun. Og fólk er að reyna að gera það. Og ég vil meina að svona við­burðir og aðrir eigi bara fullan rétt á sér,“ segir Bragi.

Mikil­vægt sé að við­burðir eins og jóla­tón­leikar verði á­fram leyfðir.

„Þetta eru mjög miklar tak­markanir nú þegar. Og fólk er að flykkjast í hrað­prófin og það lætur sig hafa það því það vill gera þetta vel,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×