Jarðskjálfti upp á 3,9 stig um hálfþrjúleytið í dag með upptök í Trölladyngju norðan Krýsuvíkur minnti íbúa Reykjavíkur og nágrennis rækilega á umbrotin á Reykjanesskaga. Allra augu beinast þó að eldstöðinni í Fagradalsfjalli en þar hefur þó dregið úr skjálftavirkni síðustu sólarhringa.
Í fréttum Stöðvar 2 lýsti Magnús Tumi mati sínu á stöðunni og líklegri framvindu mála. Hann segir þó alveg klárt að dregið hafi úr skjálftavirkninni en einnig gliðnun landsins. Tvennt gæti verið í stöðunni:

„Að þetta sé að verða búið. En hitt er alveg eins líklegt, að kvikan sé núna búin að ryðja frá sér þar sem hún getur og fer þá að leita upp.“
Magnús áætlar að á þeim þremur mánuðum, frá því gosinu lauk í september og þar til hrinan núna hófst fyrir jól, hafi sextíu milljón rúmmetrar safnast fyrir af kviku undir eldstöðinni.
„Það er bara jafnmikið aðrennsli kviku og var að streyma upp í gosinu.“

Magnús vitnar til þess mats sérfræðinga Veðurstofunnar að kvikan sé núna á um tveggja kílómetra dýpi en hún gæti verið fljót upp.
„Það gæti verið nokkrir klukkutímar. Það gæti verið nokkrir dagar. Það gæti líka, svo undarlegt sem það virðist, að þetta væri bara búið núna.“
Hann telur langlíklegast að, gjósi á annað borð, verði það á sama stað eða svipuðum og síðast. Líklegra sé að það gerist þá á næstu dögum frekar en næstu vikum.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: