Aðgerðin er tímabundin og hugsuð til að stoppa hraða dreifingu ómíkron afbrigðis kórónuveirunnar en yfir milljón tilfelli greindust á Bretlandseyjum í síðustu viku og var það tæplega 50% aukning frá því í vikunni þar á undan.
Sex stéttarfélög starfsmanna í skólum landsins höfðu óskað eftir aðgerðum yfirvalda til að hefta útbreiðslu afbrigðisins og höfðu varað við því að landspróf væru í hættu ef ekki yrði brugðist við. Kröfur starfsmannanna lutu að lofthreinsibúnaði, fjármagni til að hægt væri að leysa af þá starfsmenn sem frá væru vegna veikinda og að boðið væri upp á sýnatöku í skólunum.
Kennarar munu ekki þurfa að bera grímur samkvæmt nýju reglunum en England var eina landið á Bretlandseyjum þar sem ekki var skylda fyrir nemendur að bera grímur í kennslustundum.
Að sögn menntamálaráðherra Breta, Nadhim Zahawi, munu reglur um grímuskyldu gilda þar til 26.janúar en það er þegar núgildandi sóttvarnarreglur ríkisstjórnarinnar falla úr gildi.
Þá sagði hann að 7000 eintökum af lofthreinsibúnaði yrði dreift í skóla landsins en alls eru tæplega 25000 skólar á Englandi.
Líkt og hér á landi hafa margir Bretar óttast að skólastarf muni raskast þegar skólar hefjast að nýju eftir jólafrí. Að sögn yfirvalda verða skólar settir í forgang hvað varðar sýnatöku til að tryggja að þeir gætu opnað vandræðalaust.