Erlent

Drógu flug­mann úr brakinu andar­tökum áður en lest keyrði yfir það

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Skjáskot úr myndbandinu búkmyndavél lögreglumanns tók á vettvangi sem sýnir augnablikið rétt áður en lestin keyrði á brakið á miklum hraða.
Skjáskot úr myndbandinu búkmyndavél lögreglumanns tók á vettvangi sem sýnir augnablikið rétt áður en lestin keyrði á brakið á miklum hraða. LAPD

Lögreglumönnum í Los Angeles í Bandaríkjunum tókst að bjarga flugmanni úr braki lítillar Cessnu-flugvélar sem hrapað hafði á lestarteina, örfáum sekúndum áður en að afvífandi lest keyrði yfir brakið á miklum hraða.

Atvikið átti sér stað í gær og náðist á myndband sem sjá mér að neðan. Vert er að vara lesendur við því að myndbandið getur vakið óhug.

Fjallað er um björgunina á vef Reuters þar sem fram kemur að flugvélin hafi hrapað til jarðar skömmu eftir flugtak. Svo virðist sem að flugvélinni hafi verið brotlent á hraðbraut og stöðvaðist hún þar sem lestarteinar þvera veginn.

Á myndbandinu má sjá hvernig lögreglumönnum tekst að toga flugmanninn úr brakinu og draga hann burt fá lestarteinunum ú örugga fjarlægð.

Örfáum sekúndum síðar má sjá lest keyra á fullri ferð eftir lestarteinunum, beint á brakið, sem verður að engu við áreksturinn.

Í frétt Reuters kemur fram að flugmaðurinn hafi verið fluttur á sjúkrahús og ástand hans sé stöðugt, hann hafi ekki slasast alvarlega við brotlendinguna.

Ljóst er að hann á lögreglumönnunum líf sitt að launa því ekki hefði þurft að spyrja að leikslokum hefði ekki verið hægt að draga flugmanninn úr brakinu í tæka tíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×