Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Lögreglu barst tilkynning klukkan 11:29 í morgun en þá hafði hópur manna ruðst inn í íbúð í Kópavogi og ráðist á húsráðanda, hótað honum og bundið hann niður.
Mennirnir létu greipar sópa, tóku ýmis verðmæti til dæmis greiðslukort og lyf. Þeir fóru síðan af vettvangi en hótuðu að koma aftur. Húsráðandi greip þar tækifæri og náði að losa sig og óskaði eftir aðstoð lögreglu.
Eins og hótað var mættu mennirnir aftur á vettvang áður en lögregla kom á staðinn. Þeir heyrðu hins vegar í sírenuvælinu og forðuðu sér áður en lögregla náð í skottið á þeim. Samkvæmt dagbók lögreglu er málið í rannsókn.