Sóttvarnalæknir hefur sagt að ekki sé tilefni til afléttinga og því má leiða líkur að því að hann leggi til hertar sóttvarnaðgerðir.
Í sameiginlegu minnisblaði Þórólfs og Ölmu Möller landlæknis frá 10. janúar sagði að núgildandi reglur væru í besta falli að halda kórónuveirufaraldrinum í línulegum vexti en ekki að bæla hann niður.
„Stjórnvöld þurfa því að íhuga alvarlega hvort ekki sé tímabært að gripið verði til hertra samfélagslegra aðgerða til að ná betri tökum á faraldrinum samhliða áframhaldandi uppbyggingu heilbrigðiskerfisins,“ sagði í minnisblaðinu.
Þórólfur sagði síðar á upplýsingafundi að brýnt væri að koma daglegum fjölda þeirra sem greinast með Covid-19 niður í um 500, þar sem það væri eitthvað sem Landspítalinn gæti ráðið við. Daglegur fjöldi hefur verið um og yfir 1.000.
„Það er greinilegt og ég held að það sé nokkuð ljóst að ég þurfi ef á eigi að herða aðgerðir þá þarf ég að koma með tillögur um og ég verð fljótur að koma þeim á borðið ef á þarf að halda og mér sýnist stefna allt í það,“ sagði Þórólfur.
Hildur Helgadóttir, verkefnastjóri farsóttanefndar Landspítala, sagði í samtali við fréttastofu á þriðjudag að það væri ekkert launingamál að forsvarsmenn spítalans hefðu viljað sjá harðari aðgerðir.
„Við þolum ekki fleiri daga af þúsund til tólf, þrettán hundruð smitum. Það er alveg ljóst. Þannig að ef að sú þróun heldur áfram næstu tvo daga þá munum við held ég berja enn fastar á dyrnar,“ sagði Hildur.
Hún sagðist þó hafa skilið stjórnvöld þannig að þau myndu herða ef næstu dagar sýndu þörf á því.
„Að sumu leyti er þetta sprungið nú þegar þegar ekki er hægt að sinna þeim lögbundnu verkefnum sem spítalinn á að sinna. Það sem er held ég svo mikilvægt er að fólk taki höndum saman að verja heilbrigðiskrefið sitt og bara hafi sig algjörlega hægt. Ef allir kæla sig niður.“