Erlent

Franskur ævintýramaður fannst látinn við Asóreyjar

Samúel Karl Ólason skrifar
Jean-Jacques Savin um borð í árabát sínum.
Jean-Jacques Savin um borð í árabát sínum. Facebook

Hinn 75 ára gamli ævintýramaður Jean-Jacques Savin fannst í gær látinn undan ströndum Asóreyja. Í byrjun árs lagði hann af stað á sérsmíðuðum bát sem hann ætlaði að róa yfir Atlantshafið.

Hann lagði af stað frá Portúgal þann 1. janúar og átti ferðin að taka um hundrað daga. Savin, sem varð 75 ára gamall á sjó þann 14. janúar, hafði lýst ferðinni sem hans síðasta ævintýri. Hann virkjaði neyðarsenda bátsins á fimmtudaginn en báturinn sást á hvolfi á föstudaginn og í gær voru kafarar sendir á vettvang. Þeir fundu lík ævintýramannsins um borð.

Í tilkynningu á Facebooksíðu Savin segir að ekki verði gefnar meiri upplýsingar um dauða hans fyrr en frekari upplýsingar um hvernig hann bar að liggi fyrir.

Í sínum síðustu skilaboðum, sem hann sendi frá sér á miðvikudaginn, sagði Savin frá því að sólarrafhlaða hans hefði bilað en hana notaði hann til að keyra tæki til að eima sjó svo hann hefði drykkjarvatn. Hann sagðist þó ekki í hættu.

Þá nefndi hann að veðurspár gerðu ráð fyrir sterkum vindhviðum og öldugangi og sagðist Savin vonast til þess að veðrið myndi hjálpa honum að ná til Asóreyja.

Árið 2019 ferðaðist Savin yfir Atlantshafið í tunnu. Hann hafði einnig, samkvæmt frétt Washington Post, farið yfir hafið á seglbát, klifrað á tind Mount Blanc og synt fjórum sinnum yfir Arcachon-flóa í Frakklandi.

Hefði honum tekist ætlunarverk sitt hefði hann orðið elsti maðurinn til að róa yfir Atlantshafið en núverandi methafi er breskur maður sem fór yfir hafið 72 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×