Sólveig Anna sagði af sér sem formaður í október síðastliðnum í kjölfar þess að starfsfólk Eflingar lýsti yfir vantrausti á hana. Málið var mikið deiluefni innan félagsins.
„Það sem sameinar okkur meira en nokkuð annað er trúin á að umbylta félaginu og gera Eflingu að öflugu vopni í kjarabaráttu lágluanafólks. Breytingar í félaginu okkar á síðustu árum hafa gefið okkur von og sannfæringu um að þetta sé hægt,“ segir í yfirlýsingu framboðsins.
„Skiplögð og einbeitt barátta skilar árangri. Við viljum byggja á þeim grunni og þess vegna viljum við starfa í stjórn Eflingar undir formennsku Sólveigar Önnu Jónsdóttur.“
Þá segir á heimasíðu framboðsins að það sé hópur Eflingarfélaga sem eigi það sameiginlegt að vilja umbylta félaginu og endurvekja íslenska verkalýðsbaráttu.
Á listanum með Sólveigu Önnu eru Daníel Örn Arnarsson varaborgarfulltrúi í Reykjavík og stjórnarmaður í Eflingu, Innocentia F. Friðgeirsson matráður á Landspítala, Ísak Jónsson tæknimaður, Kolbrún Valvesdóttir starfsmaður heimaþjónustu hjá borginni, Michael Bragi Whalley leikskólaleiðbeinandi, Olga Leonsdóttir starfsmaður á hjúkrunarheimili og Sæþór Benjamín Randalsson, starfsmaður á barnavistheimili.