Fótbolti

Eiginkona fótboltamanns skotin til bana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristina Vita Aranda með keppnistreyju eiginmannsins síns.
Cristina Vita Aranda með keppnistreyju eiginmannsins síns. Instagram/@vitaaranda

Paragvæski knattspyrnumaðurinn Ivan Torres er orðinn ekill eftir eiginkona hans var skotin til bana um síðustu helgi.

Kona hans, Cristina Vita Aranda, lést eftir að hafa orðið fyrir skoti á tónleikum í Asunción, höfuðborg Paragvæ.

Hún var 29 ára gömul og starfaði sem módel. Þau voru gift og áttu saman þrjú börn, þrjá stráka.

Ivan var með konu sinni á tónleikunum en slapp ómeiddur. Cristina og annar maður létust en fjórir aðrir slösuðust. Enginn hefur verið handtekinn eftir þessa skotárás.

Það virðist þó vera að Cristina hafi lent í miðjum skotbardaga milli aðila í VIP svæðinu á tónleikunum og hún lést eftir að hafa fengið skot í höfuðið. Það tókst ekki að bjarga lífi hennar á sjúkrahúsi.

Ivan Torres er þrítugur og spilar sem vinstri bakvörður hjá Olimpia. Hann hefur leikið einn landsleik en það var árið 2019.

Paragvæsku landsliðsmennirnir minntust eiginkonu fyrrum landsliðsmanns með því að standa saman í hring á æfingu landsliðsins sem var undirbúa sig fyrir leik í undankeppni HM.

Aranda var einkaþjálfari, módel og áhrifavaldur. Hún var með næstum því hálfa milljón fylgjenda á Instagram.

Ivan Torres minntist eiginkonu sinnar með fallegum orðum á Instagram síðu sinni. Hann birti myndasyrpu af henni einni og henni með börnum þeirra.

„Svona vil ég minnast þín elskan mín, með þitt fallega bros og þitt stóra hjarta,“ skrifaði hann meðal annars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×